Hámarkshraði verður lækkaður á samtals 66 stöðum í Hafnarfirði eftir að bæjarstjórn bæjarins samþykkti í síðasta mánuði tillögu umhverfis- og framkvæmdaráðs þess efnis, en undirbúningsvinna að þessu hefur staðið síðustu ár.
Bætist Hafnarfjörður þar með í hóp með Reykjavíkurborg og Kópavogsbæ þar sem heildarendurskoðun hefur verið á hámarkshraðaáætlun.
Í Hafnarfirði verður hámarkshraði lækkaður úr 50 km/klst niður í 40 km/klst á samtals 59 svæðum og úr 50 km/klst niður í 30 km/klst á 7 svæðum.
Meðal þeirra gatna þar sem hámarkshraði verður lækkaður eru Lækjargata, Ásbraut, Elliðavatnsvegur, Hvaleyrarbraut, Reykjavíkurvegur, Strandgata og Flatahraun, en heildarlista má sjá í töflunni hér í fréttinni.
Talsverð umræða varð á samfélagsmiðlum vegna ákvörðunar Kópavogs í síðasta mánuði um sambærilega lækkun. Sagði Bergur Þorri Benjamínsson, varabæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og formaður umhverfis- og samgöngunefndar Kópavogsbæjar, að breytingarnar væru gerðar í nafni umferðaröryggis og að ef fólk teldi sig þurfa að keyra á 50 km/klst hraða í íbúðagötum þyrfti það að hugsa sinn gang í umferðinni.
Verkfræðingurinn Stefán Agnar Finnsson vann skýrslu fyrir Hafnarfjörð vegna stefnumörkunar um hámarkshraða, en í skýrslunni er meðal annars farið yfir slys í Hafnarfirði.
Frá árinu 2000 hafa að meðaltali orðið um 40 slys á ári í umferðaróhöppum í Hafnarfirði, en um helmingur þeirra verður á bæjargötum meðan helmingur er á götum á vegum Vegagerðarinnar. Þá var á árunum 2011 til 2020 samtals 83 óhapp þar sem ekið var á óvarinn vegfarenda, gangandi eða hjólandi.
Í úttekt Stefáns kemur fram að hraði ökutækja skipti öllu máli varðandi afleiðingar þegar ekið er á óvarinn vegfarenda. Í skýrslunni leggur hann fram tillögur um endurskoðun á hámarkshraða á 66 stöðum í bænum. Umhverfis- og framkvæmdaráð bæjarins og síðar bæjarstjórn samþykktu þær breytingar, en þó með þeirri endurskoðun að 13 staðir þar sem Stefán hafði mælt með að lækka hraða niður í 30 km/klst var fallist á að lækka hraðann niður í 40 km/klst.
Skýrslu Stefáns fylgdu einnig ábendingar um aðgerðir vegna þessara breytinga. Þær fela meðal annars í sér að setja upp hraðahindranir, bæði hefðbundnar og svokallaða strætókodda, við gangbrautir á nokkrum stöðum.
Einnig er mælt með upphækkuðum gönguleiðum á nokkrum stöðum, uppsetningu skilta, að koma upp stöðvunarskyldu á nokkrum stöðum, breyting á umferðaljósastýringu og að beina tilmælum til Vegagerðarinnar um að lækka hámarkshraða í Fjarðarhrauni niður í 50 km/klst. Er heildarkostnaður við þessar breytingar metinn um 52 milljónir króna.
Allir þeir staðir sem um ræðir eiga það sammerkt að þar hefur orðið fjöldi slysa á óvörðum vegfarendum á undanförnum árum og í mörgum tilfellum alvarleg slys.