Segir af sér varaþingmennsku

Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir.
Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir.

Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir hefur sagt af sér varaþingmennsku fyrir Samfylkinguna og öðrum trúnaðarstörfum fyrir flokkinn.

Þessu greinir hún frá á facebooksíðu sinni, þar sem hún segir Samfylkinguna hafa sofnað á verðinum í veigamiklum mannréttindamálum.

„Í bylgju hinsegin hatursorðræðu og ofbeldis voru engin viðbrögð frá flokknum. Síðar var Arnþrúði Karlsdóttur, sem rekur útvarpsstöð sem básúnar hatursorðræðu gegn hinsegin fólki og innflytjendum, boðið að tala á fundi. „Við erum á leið út úr bergmálshellinum“ var viðkvæðið. Ég og fleira hinsegin fólk innan flokksins þurftum að útskýra að líf okkar og réttindi gætu aldrei verið til umræðu,” skrifar Inga Björk.

Man ekki eftir þessum vinnubrögðum

Einnig nefnir hún að hún hafi tekið þátt í að skrifa tillögu fyrir flokksstjórnarfund Samfylkingarinnar um stöðu innflytjenda og umsækjenda um alþjóðlega vernd og mikilvægi þeirra fyrir íslenskt samfélag. Rót tillögunnar hafi verið aukin útlendingaandúð í íslensku samfélagi í kjölfar mikillar hörku ríkisstjórnarinnar.

„Ákveðið var að samþykkja ekki tillöguna heldur að vísa henni til lokaðs málefnahóps til umfjöllunar. Það getur verið eðlilegt að gera það undir ákveðnum kringumstæðum en í þennan hóp hafa aðeins ákveðnir flokksmenn fengið boð um þátttöku. Þetta eru vinnubrögð sem ég man ekki eftir á þeim áratug sem ég hef verið virk innan flokksins. Það sama er uppi á teningnum í öðrum málaflokkum þar sem stefnubreytingar sem unnar eru í lokuðum hópum sérfræðinga eru kynntar en eru ekki til umræðu,” skrifar Inga Björk og segir ákvörðun sína um að segja sig frá starfi Samfylkingarinnar hafa verið erfiða en rétta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka