Andlát: Pétur Guðfinnsson

Pétur Guðfinnsson, fv. útvarpsstjóri og framkvæmdastjóri Sjónvarpsins, er látinn, 94 …
Pétur Guðfinnsson, fv. útvarpsstjóri og framkvæmdastjóri Sjónvarpsins, er látinn, 94 ára að aldri. Ljósmynd úr einkasafni

Pétur Guðfinnsson, fv. útvarpsstjóri og framkvæmdastjóri Sjónvarpsins, lést á dvalarheimilinu Grund í morgun, á 95. aldursári.

Pétur fæddist á Eskifirði 14. ágúst 1929 en flutti með foreldrum sínum til Reykjavíkur vorið 1930. Foreldrar hans voru Marta Pétursdóttir húsmóðir, f. 1901, d. 1992, og Guðfinnur Þorbjörnsson, vélstjóri og framkvæmdastjóri, f. 1900, d. 1981.

Pétur lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1949. Hann tók próf í frönsku og menningarsögu frá Sorbonne-háskóla í París 1950, diplôme í stjórnmálafræði frá Háskólanum í Grenoble í Frakklandi 1952 og stundaði nám í hagfræði, rekstrarfræði og bókhaldi og sögu við Kaupmannahafnarháskóla 1953 til 1954.

Pétur var starfsmaður Evrópuráðsins í Strassborg frá 1955 til 1964 er hann var skipaður framkvæmdarstjóri Sjónvarpsins 1. desember 1964. Pétur var jafnframt staðgengill útvarpsstjóra í fjarveru hans þar til hann tók við stöðu útvarpsstjóra árið 1996. Hann lét af störfum hjá Útvarpinu í ársbyrjun 1997 fyrir aldurs sakir.

Fyrsti starfsmaður Sjónvarpsins

Pétur var fyrsti starfsmaður Sjónvarpsins og átti mestan þátt í að Ríkisútvarpið Sjónvarp hóf útsendingar 30. september 1966. Hann sá um að skipuleggja allt starf Sjónvarpsins frá öndverðu: ráða starfsmenn, mennta þá og senda á námskeið, bæði hérlendis og erlendis, finna Sjónvarpinu húsnæði, kaupa tækjabúnað, tól og skrifstofuhúsgögn.

Einnig var hann stjórnvöldum innan handar við lagasetningar og reglugerðir. Hann gaf út ársskýrslu Sjónvarpsins frá 1973, en ritun ársskýrslu var þá nýlunda hérlendis. Hann kom á fót fréttastofu Sjónvarpsins og setti henni stefnu. Mest er um vert er að hann festi kaup á erlendu og innlendu efni til útsendingar, en íslenska Sjónvarpið þurfti strax í upphafi að sanna sig gagnvart sjónvarpi varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli.

Loks setti hann Sjónvarpinu pólitíska og menningarlega stefnu, stefnu sem hefur lítið breyst síðan og hefur sett mark sitt á alla þjóðina í meira en hálfa öld. Pétur hlaut riddarakross fyrir forystustörf á vettvangi íslenskra fjölmiðla á nýársdag 2021.

Tók virkan þátt í norrænu og evrópsku samstarfi

Pétur gegndi einnig ýmsum öðrum störfum. Hann starfaði við sendiráð Íslands í París 1953. Hann var frönskukennari við Menntaskólann í Reykjavík (MR) 1968 til 1970, og síðar prófdómari í frönsku við MR og einnig við Menntaskólann við Hamrahlíð (MH).

Pétur var alla tíð mjög virkur í félagslífi. Hann sat í stjórn Rotaryklúbbsins í Reykjavík, Austurbær, árin 1975 til 1980, og var forseti hans 1978 til 1979. Einnig tók hann virkan þátt í evrópsku og norrænu samstarfi á sviði sjónvarpsmála. Hann var formaður Nordvision, samtaka norrænnar sjónvarpsstöðva 1988 til 1991.

Hann sat í stjórn Norræna sjónvarpssjóðsins frá stofnun hans 1987 og var varaformaður stjórnar frá 1991 til starfsloka. Hann átti um skeið sæti í alþjóðlegri dómnefnd Jean d’Arcy-sjónvarpsverðlaunanna. Hann var formaður ritnefndar Engeyjarættar, en sú bók kom út hjá Bókaútgáfunni Hólum 2011.

Pétur giftist 1. september 1953, Stellu Sigurleifsdóttur, fulltrúa á skrifstofu bæjarstjóra Kópavogs, f. 12. janúar 1928, d. 22. apríl 2003. Börn þeirra eru: Ólöf Kristín, íslenskufræðingur (BA) og keltneskufræðingur (BA og MA) og þýðandi, fædd 28. desember 1954; Áslaug Helga, kennari og verslunarmaður í Barcelona, fædd 3. desember 1957, dáin 28. júlí 2002; Pétur Leifur, verslunarmaður í Barcelona, fæddur 20. nóvember 1961, dáinn 7. júlí 2008; og Elín Marta, húsmóðir í Bandaríkjunum, fædd 14. desember 1963.

Pétur átti sjö barnabörn og sex barnabarnabörn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert