Ákveðin líkindi eru á milli Höllu Hrundar Logadóttur í dag og Höllu Tómasdóttur árið 2016. Áhugavert er að Katrín Jakobsdóttir hafi ekki aukið forskot sitt síðan hún tilkynnti um forsetaframboð, en ekki er hægt að draga of miklar ályktanir um fylgismun Katrínar og Baldurs Þórhallssonar.
Þetta segir almannatengillinn Andrés Jónsson í samtali við mbl.is um nýja könnun Prósents.
Í könnun Prósents kemur fram að Baldur Þórhallsson er með mest fylgi eða 27,2%, Katrín mælist með tæplega 24% og Jón Gnarr mælist með 17,2%. Halla Hrund er hins vegar hástökkvarinn og mælist með 18% fylgi.
„Ég held að það sem útskýri þetta sé að hún [Halla Hrund] talar í rauninni í rómantískar hugmyndir um hvað forseti er, og held ég ekki af neinni tilviljun. Það er svolítill Vigdísarbragur og mjög þjóðleg stef sem hún spilar á. Hún hefur líka gætt sín að vera óflekkuð, eins og sást í Pallborðinu á Vísi – hún forðaðist að fara út í leðjuslag,“ segir Andrés Jónsson.
Andrés segir vekja athygli að Katrín skuli ekki hafa aukið forskot sitt frá því að hún tilkynnti um framboð sitt, sem hann hafi átt vona á. Þó minnir hann á að kosningabaráttan sé auðvitað bara rétt að byrja.
„Það kemur á óvart líka að Baldur sé svona sterkur áfram af því það er oft erfitt – hann kom fram fyrstur – og það hefur sýnt sig með spútnik framboð og spútnik flokka að það getur verið erfitt að halda dampi. Hann var auðvitað ekki landsþekktur fyrir sitt framboð,“ segir Andrés.
Hann segir að það hafi margir talað um að Katrín væri verulega sigurstrangleg þegar hún bauð sig fram. Miðað við kannanir þá sé þetta þó alls ekki gefið hjá henni og mun hún þurfa að reka góða kosningabaráttu.
Andrés nefnir að ákveðin líkindi séu með Höllu Hrund í dag og Höllu Tómasdóttur árið 2016. Þegar Davíð Oddsson og Guðni Th. Jóhannesson tókust á þá var Halla Tómasdóttir ekki að blanda sér í þá deilu. Fólk sem hugnaðist ekki mikil pólitísk átök um forsetaembættið hafi þá kosið Höllu Tómasdóttur.
„Það getur verið að það sama sé að gerast með Höllu Hrund. Hún hefur hvorki verið að taka harða afstöðu í kosningabaráttunni né mjög pólitískt tengd.“
Einhverjir hafa velt því fyrir sér hvort að Halla Hrund sé í raun eins og Halla Tómasdóttir árið 2016. Er það mögulega staðan?
„Ríkjandi viðhorf meðal þeirra sem velta þessu mikið fyrir sér er einmitt að hún sé líklegri til að vera Halla Tómasdóttir þessara kosninga heldur en að verða forseti. Að það sé einfaldlega of langsótt en það sé auðvitað möguleiki, en líklegast sé að hún geti orðið spútnik kosningabaráttunnar og orðið í öðru sæti eins og Halla síðast. Auðvitað er mikið eftir og það eru kappræður og við vitum að kappræður í sjónvarpi geta haft mikil áhrif.“
Í könnunum Maskínu og Gallup hefur Katrín verið að mælast með mesta fylgið af öllum frambjóðendum. Í könnunum Prósents hefur hins vegar Baldur verið að mælast með mesta fylgið meðal frambjóðenda. Spurður hvað eigi að lesa í þennan mun segir Andrés:
„Sögulega, eins og í síðustu Alþingiskosningum, þá var Prósent aðeins lengra frá endanlegum niðurstöðum. Þannig það hafa komið kannanir þar sem Prósent er ekki nægilega marktækt.
Þau eru samt að nota viðurkennda könnunarfræða þannig ég held að þetta gefi alveg vísbendingu, sérstaklega um að Halla Hrund sé að auka verulega fylgið sitt. Ég myndi kannski ekki draga of miklar ályktanir af fylgi annarra eins og Baldurs, Jóns og Katrínar,“ segir Andrés.
Á næstu dögum og vikum má gera ráð fyrir því að frambjóðendur mætist í kappræðum, sem Andrés segir geta skipt miklu máli. Þar segir Andrés frambjóðendur þurfa að tikka í þau box sem kjósendur eru að máta frambjóðendur í.
„Það er aðeins ólíkt eftir kjósendum en kjósendur vilja manneskju sem talar eins og það ímyndar þér að forseti eigi að gera. Talar um þjóðina á þann hátt að við speglum okkur í því og það samræmist sjálfsmynd okkar sem þjóðar. Svo vill stór hópur kjósenda væntanlega líka að forsetinn geti verið fastur fyrir og sé með skýra sýn á hlutverk sitt með stjórnarskrána, öryggisventilinn og að vera aðhald á stjórnmálin.“
Hann segir mikilvægt að koma vel fyrir í sjónvarpi og vera manneskja sem fólki líkar vel við.
„Vera bæði alþyðleg – jafningi okkar – en líka einhvern veginn draumsýn um manneskju sem endurspeglar það besta í þjóðinni sem við erum stolt af og horfum upp til,“ segir Andrés.