Halla Hrund Logadóttir mælist með 18% fylgi fyrir komandi forsetakjör og hefur því naumlega komist upp fyrir Jón Gnarr í fylgi. Munurinn er hins vegar sáralítill en vikmörkin nokkur, svo á þeim er ekki tölfræðilega marktækur munur.
Hins vegar er marktækur munur á þeim og fólkinu í toppbaráttunni, þeim Baldri Þórhallssyni og Katrínu Jakobsdóttur.
Baldur og Katrín eru enn með mest fylgi þeirra frambjóðenda, sem hafa lýst yfir framboði í forsetakjöri. Baldur mælist með ívið meira fylgi en Katrín; 27,2%, en Katrín er með 23,8%.
Vegna vikmarka er ekki tölfræðilegur munur á þeim tveimur heldur. Baldur gæti verið með fylgi á bilinu 24,6 til 29,9%, en Katrín með fylgi á bilinu 21,3-26,4%.
Þetta kemur fram í niðurstöðum könnunar, sem Prósent gerði fyrir Morgunblaðið; hinni síðustu áður en framboðsfrestur rennur út á föstudag og ljóst verður hverjum auðnaðist að afla tilskilins meðmælendafjölda og verða raunverulega í framboði.
Líkt og sjá má af súluritunu að ofan er vart sjónarmunur á Höllu Hrund og Jóni Gnarr, en hins vegar er greinilegt að hún hefur verið á hraðsiglingu síðastliðnar tvær vikur og hefur bætt mjög duglega við sig fylgi meðan aðrir efstu frambjóðendur hafa allir gefið ögn eftir ef marka má þessa mælingu Prósents. Nánari grein er gerð fyrir þeirri þróun í grein og myndritum um fylgi allra frambjóðenda, sem finna má á síðu 4.
Eftir sem áður virðist aðalbaráttan – enn sem komið er – eiga sér stað á milli þeirra Katrínar Jakobsdóttur og Baldurs Þórhallssonar, en hið mikla ris Höllu Hrundar sýnir vel, að það er nóg eftir af baráttunni og að fylgið er engan veginn læst inni hjá tilteknum frambjóðendum.
Segja má enda að kosningabaráttan sé í raun ekki hafin, að það geri hún ekki fyrr en 2. maí þegar landskjörstjórn hefur farið yfir öll framboð, athugað meðmælendalista, og auglýsir hinn endanlega lista frambjóðenda.
Fylgi annarra frambjóðenda er mun minna, Halla Tómasdóttir kemur næst með 5,8% fylgi þegar aðeins er horft til þeirra sem afstöðu tóku, Arnar Þór Jónsson er með 2,8% og Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir með 2,1%. Aðrir eru með hverfandi fylgi.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag.