Hefur ekki beðið Geir Haarde afsökunar

Katrín Jakobsdóttir, fyrrum forsætisráðherra, hefur ekki beðið Geir H. Haarde afsökunar vegna aðkomu hennar að hinu svokallaða Landsdómsmáli. Það fólst í því að meirihluti Alþingis, undir forystu ríkisstjórnar sem Katrín átti aðild að á árunum 2009-2013, ákvað að ákæra Geir á grundvelli svokallaðrar ráðherraábyrgðar. Taldi meirihluti þingsins að Geir hefði sýnt af sér slíka vanrækslu í aðdraganda bankahrunsins að það varðaði við lög og að hann ætti að sæta fangelsisrefsingu fyrir.

Katrín Jakobsdóttir mætti í Spursmál og ræddi þar meðal annars …
Katrín Jakobsdóttir mætti í Spursmál og ræddi þar meðal annars málskotsrétt forseta Íslands og fleira sem tengist embættinu sem hún sækist eftir. Fleiri mál bar á góma, einkum þau sem tengjast pólitískri fortíð hennar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þingmenn, sem aðild áttu að málinu hafa lýst efasemdum um réttmæti málsins og hefur Magnús Orri Schram m.a. beðið Geir afsökunar á sínum þætti málsins.

Katrín Jakobsdóttir, sem nú sækist eftir embætti forseta Íslands, er nýjasti gestur Spursmála og þar er hún spurð út í þetta mál og hvort hún sé stolt af aðkomu sinni að því.

Orðaskiptin þar um má sjá í spilaranum hér að ofan en þau eru einnig rituð upp, orð fyrir orð, hér að neðan.

Kaus með öllum tillögum nefndarinnar

Landsdómsmálið gegn Geir H. Haarde, fyrrum forsætisráðherra. Þú tókst þátt í atkvæðagreiðslu í þinginu og þú kaust með tillögu um að Geir yrði settur í fangelsi fyrir það að hafa ekki haldið fundi í aðdraganda bankahrunsins. Og ef ég man rétt þá kaust þú líka með því að ákærður yrði Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra. Er það misminni?

„Ef ég man rétt þá kaus ég með öllum tillögum sem nefndin lagði það fyrir þingið.“

Mjög erfið ákvörðun

Ertu stolt af þessari ákvörðun?

„Sko, þessi ákvörðun er önnur mjög erfið ákvörðun, sprettur upp úr tillögu, skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis, eins og þú þekkir. Og þetta mál fór síðar til Mannréttindadómstólsins sem komst að þeirri niðurstöðu að réttlát málsmeðferð hefði verið viðhöfð.

Ég vil segja það í þessu að ég hef síðan lagt til breytingu á þessu fyrirkomulagi því mér finnst það vont, jafnvel þótt Mannréttindadómstóllinn hafi komist að þeirri niðurstöðu að þetta fyrirkomulag héldi, þá hef ég lagt það til að stjórnarskrá verði breytt. Ég setti líka vinnu í gang við að endurskoða lög um ráðherraábyrgð og Landsdóm, í samráði við þáverandi dómsmálaráðherra, Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur. Það var því miður rétt fyrir heimsfaraldur þannig að þau frumvörp náðu ekki fram að ganga. En ég hef ekki aðeins sagt það heldur beinlínis beitt mér fyrir því að þessu fyrirkomulagi verði breytt. En það hefur því miður ekki náð fram að ganga,“ segir Katrín.

Geir H. Haarde vísaði öllum sakaratriðum á hendur sér á …
Geir H. Haarde vísaði öllum sakaratriðum á hendur sér á bug. Hann var að lokum sakfelldur fyrir einn ákærulið en var ekki gerð refsing. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Gegndi síðar sama embætti og Geir

En ertu stolt af þessari ákvörðun, því þetta lýtur að pólitískum andstæðingi þínum sem var í þessu embætti sem þú síðar gegndir?

„Algjörlega. Og þetta var ekkert auðveld ákvörðun á sínum tíma. Og þar fór ég ekki í neina flokkadrætti, ég tek það fram, í minni atkvæðagreiðslu heldur fylgdi þeirri tillögu sem kom frá þeirri nefnd sem hafði legið yfir málinu á vegum þingsins...“

Stjórnmálamenn sömdu ákæruskjalið

Sem voru pólitískir andstæðingar Geirs...

„...byggði sína niðurstöðu á þeirri vinnu sem þau unnu í kjölfar Rannsóknarnefndar. Síðan kemst Mannréttindadómstóllinn að þessari niðurstöðu. En ég held að það ætti að segja nóg um mína afstöðu til þessa máls að þrátt fyrir það hef ég sagt að þetta fyrirkomulag gengur ekki.“

Þráspurð út í stolt eða ekki

En þú vilt ekki svara því hvort þú sért stolt af þessu eða ekki?

„Ég ætla að segja að mér fannst þetta mjög erfitt mál.“

Hefur þú rætt þetta við Geir því nú eru þingmenn sem hafa beðist afsökunar á þessu?

„Já, já. Ég hef ekki rætt þetta sérstaklega en ég hef hins vegar beitt mér sérstaklega en ég hef hins vegar beitt mér eins og ég segi og það má deila um hvort sé betra orð eða gjörðir í því. En ég tel að gjörðir mínar sýni þá skoðun sem ég hef á þessu fyrirkomulagi sem mér finnst ekki gott. Og ég vona að þótt ég sé núna horfin af sviði pólitíkurinnar að það verði einhverjir sem taki þetta mál áfram því þar liggja fyrir mjög góðar tillögur.“

Viðtalið við Katrínu Jakobsdóttur má sjá og heyra í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka