Útlit er fyrir veðurblíðu mestalla næstu viku á landinu og gerir veðurspáin ráð fyrir fremur hægum vindum og bjartviðri víða, segir Katrín Agla Tómasdóttir veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.
Búist er við því að það verði hægur vindur, léttskýjað og sólríkt um allt land í dag. Hiti gæti náð allt að 13 stigum á Suðurlandi en aðeins svalara verður á Norðurlandi.
Þegar líður á vikuna fer nokkuð að kólna á norðaustanverðu landinu með norðan- og norðaustanátt og éljum.
Spurð hvort vorið sé loksins komið til landsins segir Katrín að svo gæti vel verið enda sé útlit fyrir hlýnandi veður í vikunni. Hún þorir þó ekki að lofa því að góða veðrið sé alveg komið til að vera. „Það kom sunnanátt yfir landið um helgina með hlýjan loftmassa. Þá er hæðarhryggur að myndast yfir landinu sem á að haldast alveg út miðja næstu viku,“ segir Katrín.
Sumardagurinn fyrsti er á fimmtudaginn og virðist ætla að rætast úr deginum á Suðvesturlandi. Útlit er fyrir fremur hæga norðlæga átt í landshlutanum. Hiti verður 5 til 11 stig yfir daginn og léttskýjað. Á Norður- og Austurlandi er ekki spáð jafn góðu veðri og gætu íbúar þurft að sætta sig við hita í kringum frostmark á fyrsta degi sumars.