Lætur kannanir ekki slá sig út af laginu

Arnar kveðst hafa fengið góðar undirtektir hjá fólki sem hann …
Arnar kveðst hafa fengið góðar undirtektir hjá fólki sem hann hittir víða um landið. mbl.is/Kristinn Magnússon

Arnar Þór Jónsson forsetaframbjóðandi gefur lítið fyrir kannanir á þessum tímapunkti og segir kosningabaráttuna ekki formlega byrjaða.

Í könnun Prósents sem kom út í morgun mælist Arnar með 2,8% fylgi.

„Í fyrsta lagi velti ég fyrir mér hversu mikið mark ég á að taka á þessu í ljósi þess að helmingur kjósenda hefur ekki gert upp sinn hug. Satt best að segja þá horfi ég ekkert á þessar kannanir, ég ætla ekki að láta þessar kannanir slá mig út af laginu,“ segir Arnar í samtali við mbl.is, spurður um það hvort að hann hafi búist við meira fylgi á þessum tímapunkti.

Fjölmiðlar ekki kynnt frambjóðendur nógu vel

Hann lítur svo á nú sé verið að fara flauta af stað leik sem hefjist 26. apríl. Veðbankar og fyrirtæki megi hafa skoðanir á því hverjir muni vinna þann leik, en hann er þó ekki hafinn.

„Ég ætla bara að reima á mig skóna og ég ætla að spila þennan leik. Ég er svolítið hissa á því að fjölmiðlarnir á Íslandi, sem eru alltaf að segja að þið séuð mikilvægur þáttur í lýðræðissamfélagi, að þið ætlið í raun og veru að láta í það skína að sumir frambjóðendur séu í raun og veru ekki inn á vellinum áður en þið hafið gegnt þeirri lýðræðislegu skyldu ykkar að kynna þá,“ segir Arnar.

Telur sig eiga mikið inni

Hann segir marga Íslendinga ekki kannast við suma frambjóðendur og segir að „samkvæmisleikur“ fjölmiðla sé ótímabær. Hann telur sig eiga mjög mikið inni.

„Ég er búinn að fara um landið tvisvar sinnum og ég er að kveikja ljósin hjá fólki. Ég er að vinna þetta maður á mann og ég veit að þegar ljósin kvikna hjá þjóðinni þá getur orðið umpólun,“ segir Arnar.

Hann kveðst vera að hitta fólk, ræða við það og fá það til þess að sjá hlutina úr hans átt.

„Mér finnst það ganga vel, ég hef fengið ótrúlega góðar undirtektir og ég er með fótfestu alls staðar um landið – ég finn það. Ég skynja það líka að stór hluti almennings er farinn að missa mikið traust á fjölmiðlunum og framsetningu fjölmiðla – sérstaklega hjá Ríkisútvarpinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert