Lögreglan rannsakar andlát konu í fjölbýlishúsi

Lögreglan á vettvangi í dag.
Lögreglan á vettvangi í dag. mbl.is/Þorgeir

Lögreglan á Norðurlandi eystra hefur til rannsóknar andlát sem grunur leikur á um að hafi borið að með saknæmum hætti. Að sögn lögreglu var hún kölluð að fjölbýlishúsi á Akureyri klukkan 4.30 í nótt.

Fram kemur í tilkynningu lögreglu, að fyrstu lögreglumönnum sem komu á vettvang hafi verið vísað á meðvitundarlausa konu í íbúðinni og hófust endurlífgunartilraunir þegar í stað. Læknir og sjúkraflutningamenn komu einnig á vettvang en tilraunir til endurlífgunar báru ekki árangur og var konan úrskurðuð látin á vettvangi, að því er lögreglan greinir frá. 

Handtekinn á vettvangi

„Grunur er um að andlátið hafi borið að með saknæmum hætti og hefur lögreglan hafið rannsókn. Í íbúðinni var annar einstaklingur og var hann handtekinn í þágu rannsóknar málsins og nýtur réttarstöðu sakbornings. Krafa um gæsluvarðhald yfir honum verður lögð fram fyrir dómi í dag. Rannsókn málsins er í höndum lögreglunnar á Norðurlandi eystra, sem nýtur aðstoðar tæknideildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Rannsókn málsins er á frumstigi og mikil vinna fram undan. Vegna rannsóknarhagsmuna er ekki hægt að veita frekari upplýsingar að svo stöddu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert