Öflugasta tækið í baráttunni við smitsjúkdóma

Sóttvarnarlæknir hefur sent frá sér tilkynningu á vef Landlæknis sem …
Sóttvarnarlæknir hefur sent frá sér tilkynningu á vef Landlæknis sem snýr að mikilvægi bólusetninga barna. Ljósmynd/Colourbox

„Mikilvægt er að við höldum uppi þeirri góðu þátttöku sem verið hefur hér á landi í almennum bólusetningum til að koma í veg fyrir faraldra smitsjúkdóma. Og ef almenn þátttaka í bólusetningum er nægilega góð myndast einnig hjarðónæmi í samfélaginu sem verndar þá aðra sem ekki er hægt að bólusetja t.d. vegna aldurs (ungbörn) eða sjúkdóms.“

Sóttvarnarlæknir hefur sent frá sér tilkynningu á vef Landlæknis sem snýr að mikilvægi bólusetninga barna. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) og Sóttvarnastofnun Evrópusambandsins (ECDC) minna á mikilvægi bólusetninga til að koma í veg fyrir sjúkdóma og vernda líf. Bólusetningarviku er í Evrópu, 21.-27. apríl.

Mikilvægi bólusetninga barna

Í tilkynningu sóttvarnarlæknis segir að bólusetningar séu öflugasta tækið í baráttunni við smitsjúkdóma. Bólusótt, barnaveiki, stífkrampa, kíghósta, mænuveiki, mislingum, hettusótt og rauðum hundum hafi nær verið útrýmt hérlendis í kjölfar þess að teknar voru upp almennar bólusetningar. Árið 1989 hafi bólusetning hafist gegn bakteríunni Haemophilus influenzae (Hib) og síðan gegn meningókokkum og pneumókokkum. Allar þessar bólusetningar hafi komið í veg fyrir fjölda alvarlegra veikinda auk dauðsfalla. Eftir árið 2010 hafi svo bæst við bólusetningar gegn HPV veirusýkingu, sem geti valdið krabbameinum, og bólusetning gegn hlaupabólu.

Hjúkrunarfræðingur bólusetur barn í Suður-Afríku.
Hjúkrunarfræðingur bólusetur barn í Suður-Afríku. AFP

Bólusetningarvikan

Í ár hefur bólusetningarvikan sérstaka þýðingu að því er segir í tilkynningunni þar sem samhliða sé minnst 50 ára afmælis bólusetningaráætlunar WHO. Á þessum tímamótum beri að fagna þeim árangri sem bólusetningar hafa náð við að vernda kynslóðir gegn alvarlegum sjúkdómum. Einnig þurfi að leggja áherslu á nauðsyn góðrar þátttöku í bólusetningum og jöfnu aðgengi að þeim til að koma í veg fyrir útbreiðslu sjúkdóma sem hægt sé að koma í veg fyrir. Bólusetningar komi í veg fyrir útbreiðslu banvænna sjúkdóma og hafa bjargað milljónum mannslífa.

Í dag séu öll ríki með almennar bólusetningaráætlanir og bóluefni viðurkennd sem meðal öruggustu, hagkvæmustu og árangursríkustu lýðheilsuaðgerða sem koma í veg fyrir andlát og auka lífsgæði.

Einstakt samstarf opinberra stofnana og einkaaðila á borð við Bill …
Einstakt samstarf opinberra stofnana og einkaaðila á borð við Bill & Melinda Gates-sjóðsins hefur leitt til mikils árangurs. AFP

Einstakt samstarf

Þá segir að einstakt samstarf opinberra stofnanna og einkaaðila eins og WHO, Alþjóðlegu Rotary-hreyfingarinnar, Sóttvarnastofnunar Bandaríkjanna (CDC), UNICEF, Bill & Melinda Gates-sjóðsins og Gavi, hafi einnig leitt til mikils árangurs eins og að tilfellum mænuveiki hafi fækkað um meira en 99% á heimsvísu.

Bólusetning sé eitt skilvirkasta og hagkvæmasta inngripið í heilbrigðisþjónustu, sem allir eigi að hafa jafnan aðgang að. 50 ára afmæli bólusetningaráætlunarinnar sé tækifæri til að heiðra árangurinn sem náðst hefur og setja ný markmið fyrir framtíðina. Árangur sem undirstrikar mikilvægi bólusetninga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka