Segir nýtt frumvarp gefa eldisfyrirtækjum auðlindir

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar.
Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, segir að með nýju frumvarpi matvælaráðherra um fiskeldi verði fiskeldisfyrirtækjum gefnar auðlindir þjóðarinnar.

Það verði gert með því að breyta rekstrarleyfum í ótímabundin, en hingað til hafi leyfin verið tímabundin til 16 ára í senn með möguleika á framlengingu. Þetta kom fram í máli Kristrúnar á þinginu í dag.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, matvælaráðherra og þingmaður Vinstri grænna, sagði frumvarpið hins vegar til komið vegna þess að núverandi löggjöf væri óljós og taka þyrfti af vafa hvort rekstrarleyfi teldust tímabundin eða ótímabundin eign.

Lengi getur vont versnað

„Forseti. Lengi getur vont versnað hjá hæstvirtri ríkisstjórn. Nú ætlar þessi ríkisstjórn að gefa auðlindir þjóðarinnar, eða nánar tiltekið ætlar ríkisstjórnin að afhenda fiskeldisfyrirtækjum firðina okkar varanlega með ótímabundnum rekstrarleyfum sem hafa hingað til verið tímabundin til 16 ára í senn með möguleika á framlengingu að þeim tíma liðnum,“ sagði Kristrún í upphafi fyrirspurnar sinnar í óundirbúnum fyrirspurnartíma.

Sagði Kristrún að nær öll leyfin hafi verið gefin út án endurgjalds á sínum tíma og nú eigi að gera leyfin ótímabundin og þar með veita þau án endurgjalds. „Hvað gengur fólki eiginlega til?“ spurði hún.

Af hverju mega þessi leyfi ekki vera tímabundin

Gagnrýndi hún Vinstri græn fyrir að tala um að taka upp ákvæði um þjóðareign í stjórnarskrá, en ætla svo að gefa þessi leyfi varanlega til einkaaðila. „Hver eru rökin og hvað breyttist? Af hverju mega þessi leyfi ekki vera tímabundin eins og flest önnur nýtingarleyfi á náttúruauðlindum? Meira að segja í orkuvinnslu þar sem fjárfestingar eru sannarlega bundnar til langs tíma og borga sig til baka yfir margra áratuga tímabil fá orkufyrirtækin ekki nema tímabundin rekstrarleyfi,“ sagði Kristrún.

Bjarkey Olsen, nýr sjávarútvegs- og matvælaráðherra.
Bjarkey Olsen, nýr sjávarútvegs- og matvælaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Litlar heimildir til afturköllunar þrátt fyrir frávik

Bjarkey sagði að í núverandi umhverfi hefði Matvælastofnun afar takmarkaðar heimildir til að synja fiskeldisfyrirtækjum um endurnýjun, þrátt fyrir að frávik hafi orðið á starfseminni frá því leyfi sem þau hafa. „Það má því í rauninni segja að mörgu leyti að eins og staðan er í dag þá séu leyfin ótímabundin.“ Er þarna meðal annars verið að vísa til þess að slysasleppingar hafa orðið í nokkur skipti á undanförnum árum.

Sagði Bjarkey jafnframt að litlar heimildir væru til afturköllunar rekstrarleyfa í núgildandi lögum og því gætu fyrirtækin í raun brotið gegn leyfinu án afleiðinga um afturköllun „Það eru líka því miður litlar heimildir til afturköllunar rekstrarleyfa í núgildandi lögum og það þýðir í raun að rekstraraðili í dag getur farið á svig við leyfið og þær skyldur sem eru settar á hann innan rammalöggjafarinnar vegna þessara takmörkuðu heimilda vegna þess að það er illfært að stöðva atvinnustarfsemi innan þeirra 16 ára sem leyfi er í gildi.“

Sagði Bjarkey að með frumvarpinu væri gerð tilraun til að reyna að ná betur utan um þessi atriði og sagði hún þá auðveldara að bregðast við verði frávik í rekstri.

Mistök við upphaf útgáfu leyfanna

Sagðist Kristrún þá skilja svar Bjarkeyjar á þann hátt að mistök hafi verið gerð frá upphafi við úthlutun leyfanna. Nú hafi ríkisstjórnin gert sér grein fyrir þessum mistökum og því sé farið í þá vegferð að úthluta að því er virðist ótímabundnum leyfum.

„Ég velti því einfaldlega fyrir mér hvort það væri ekki eðlilegt að reyna að takmarka frekar heimildirnar í dag með þeim hætti að taka einmitt af allan vafa um að þessi tímabinding sé raunverulega tímabinding því að staðan er í dag sú að í flestum þeim löndum sem eru í kringum okkur, Færeyjum, Írlandi, Skotlandi, og í Chile, Nýja-Sjálandi, þá eru tímabundnar heimildir,“ sagði Kristrún.

Bjarkey svaraði í annað sinn og sagði lögin virka þannig að mjög erfitt væri að bregðast við ef eitthvað beri út af í rekstrinum. „Þessu viljum við reyna að breyta. Það gerir okkur rauninni frekar kleift að grípa inn í reksturinn ef rekstraraðilar uppfylla ekki markmið frumvarpsins þegar við tölum um sjálfbæra uppbyggingu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka