Líklegast þykir að kvikusöfnun í grunnstæða kvikuhólfinu undir Svartsengi leiði til aukins krafts í yfirstandandi eldgosi, og stækki hugsanlega gossprunguna, þegar þakið á hólfinu brestur og kvikan hleypur.
Ekki er þó hægt að útiloka að kvikan leiti annað og brjótist upp til yfirborðs með svipuðum umbrotum og við höfum áður séð við upphaf eldgosa á síðustu mánuðum á Reykjanesskaga.
Þetta segir Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga hjá Veðurstofunni, er hann fer yfir hugsanlegar sviðsmyndir vegna kvikusöfnunarinnar undir Svartsengi.
„Það er sú sviðsmynd sem við erum að skoða sem við viljum vara við – aðallega,“ segir Benedikt og vísar þá til seinni sviðsmyndarinnar sem felur í sér upphaf nýs eldgoss.
Líkanreikningar benda til þess að tæplega átta milljónir rúmmetrar af kviku hafi safnast fyrir í grunnstæða kvikuhólfinu undir Svartsengi. Hafa almannavarnir hækkað viðbúnað vegna goshættu á Reykjanesskaga.
Í fyrri atburðum hefur kvika hlaupið frá Svartsengi þegar á bilinu 8 til 13 milljónir rúmmetra hafa bæst við í kvikuhólfið frá síðasta atburði. Hefur sú atburðarás annars vegar leitt til kvikuinnskots eða eldgoss.
Enn meiri óvissa en áður ríkir nú um framhaldið í ljósi þess að landris er við þolmörk á meðan eldgos stendur enn yfir, staða sem jarðvísindamenn hafa ekki séð áður.
„Þetta er pínu óvanaleg staða, yfirleitt höfum við getað slakað á meðan gosið er í gangi en ég held við getum ekki alveg leyft okkur það núna þegar þetta fer að ná þessum mörkum.“
Að sögn Benedikts er ekki hægt að útiloka aðrar sviðsmyndir en þær sem eru nefndar hér að ofan. Það þyki þó ólíklegt.
„Ef það gerist þá myndi það hafa mun lengri fyrirvara en kvikuinnskot í þetta kerfi sem við sjáum að hefur nánast engan fyrirvara,“ segir Benedikt.
„Einn möguleikinn er að kvikan leiti lengra á kvikuganginum sem er þarna frekar en lengra til norðausturs eða suðvesturs. Hinn möguleikinn náttúrulega er að það fari kannski í Eldvörp. Við teljum það mjög ólíklegt. Við erum ekki að sjá nein merki um það. Það myndum við alltaf sjá miklu lengri fyrirvara. Við værum að horfa á einhverja klukkutíma eða miklu meira.“