Dómur í Bátavogsmálinu gæti orðið fjölskipaður

Dagbjört er grunuð um að hafa orðið sambýlismanni sínum að …
Dagbjört er grunuð um að hafa orðið sambýlismanni sínum að bana á heimili þeirra við Bátavog í september á síðasta ári. mbl.is/Kristinn Magnússon

Til skoðunar er að dómur Héraðsdóms Reykjavíkur verði fjölskipaður með sérfróðum meðdómsmönnum í þinghaldi hins svokallaða Bátavogsmáls. 

Þetta kom fram við fyrirtöku málsins í dag.

Þá hefur ákæruvaldið til skoðunar hvort að farið verði fram á yfirmat frá réttarmeinafræðingi varðandi dánarorsök karlmannsins sem fannst látinn.

Hefur ákæruvaldið óskað eftir fresti til að kynna sér matsgerð frá réttarmeinafræðingi betur. 

Neitar sök

Dagbjört Guðrún Rúnarsdóttir er grunuð um að hafa orðið sambýlismanni sínum að bana á heimili þeirra við Bátavog í september í fyrra. Hún hefur neitað sök í málinu.

Mynd­efni sem tekið var upp 22. og 23. sept­em­ber á síma Dag­bjart­ar og hins látna sýn­ir hana valda mann­in­um ít­rekuðum lík­ams­meiðing­um. Þá heyrðu ná­grann­ar ösk­ur í karl­manni sömu daga.

Töldu ástæðu til að meta sakhæfi

Ákæruvaldið taldi ástæðu til að meta sakhæfi hennar þar sem hún væri mögulega haldin ranghugmyndum. Kom það fram við þingsetningu málsins í janúar.

Því til stuðnings var nefnt að Dag­björt hefði talað um að hinn látni hefði verið með byssu sem var notuð við morðið á Olaf Palme, for­sæt­is­ráðherra Svíþjóðar, und­ir hönd­um. Þá var einnig vísað til framb­urðar sam­fanga henn­ar.

Sam­kvæmt mats­gerð sér­fræðinga um geðrænt ástand Dag­bjart­ar var hún met­in sak­hæf.

Ákæruvaldið fór í kjölfar þeirrar niðurstöðu fram á svo­kallað yf­ir­mat á matsgerð sérfræðinganna. Héraðsdómur Reykjavíkur féllst á þá kröfu en verjandi Dagbjartar kærði úrskurðinn til Landsréttar.

Landsréttur felldi úrskurð héraðsdóms úr gildi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka