Fara ekki lengur fram á einangrun yfir Davíð

Davíð hefur setið í gæsluvarðhaldi frá 5. mars.
Davíð hefur setið í gæsluvarðhaldi frá 5. mars. Samsett mynd

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu mun í dag fara fram á áframhaldandi gæsluvarðhald yfir þremur sakborningum vegna rannsóknar á mansali, skipulagðri brotastarfsemi og peningaþvætti í tengslum við viðskiptaveldi Davíðs Viðarssonar, áður Quang Lé.

Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn miðlægrar rannsóknardeildar lögreglu, staðfestir þetta í samtali við mbl.is.

Sakborningarnir þrír sem um ræðir eru Davíð, fyrrverandi eiginkona hans og bróðir.

Fjögurra vikna gæsluvarðhald

Að sögn Gríms verður farið fram á fjögurra vikna framlengingu á gæsluvarðhaldi, eða til 21. maí.

Þá mun lögregla ekki krefjast einangrunar yfir þremenningunum sem hafa verið í varðhaldi frá 5. mars, þegar lögregla réðst í umfangsmiklar aðgerðir og lokaði hóteli, gistiheimili og veitingastöðum Davíðs.

Grímur segir rannsóknina ganga vel. Mikið og flókið verk sé þó fyrir höndum. Aðspurður kveðst hann ekki vita til þess að meintir brotaþolar hafi flust úr landi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert