Höfða mál gegn ríkinu vegna Hvammsvirkjunar

Ellefu landeigendur freista þess að fella úr gildi leyfi fyrir …
Ellefu landeigendur freista þess að fella úr gildi leyfi fyrir Hvammsvirkjun fyrir dómi. mbl.is/Golli

Ellefu landeigendur við bakka Þjórsár hafa höfðað mál gegn íslenska ríkinu og Landsvirkjun og freista þess nú að fá felld úr gildi með dómi, leyfi sem Fiskistofa veitti árið 2022, og heimild Umhverfisstofnunar fyrir Hvammsvirkjun frá því fyrr í þessum mánuði.

Þetta kemur fram í sameiginlegri tilkynningu frá landeigendunum. 

Landeigendurnir telja Umhverfisstofnun hafa brostið vald til að taka ákvörðun nú fyrr í mánuðinum um að heimila Hvammsvirkjun.

Stofnunin hafi ekki skýrt lög um stjórn vatnamála með réttum hætti og byggt á broguðu rammaáætlunarferli og meira en 20 ára gömlu hverfismati. Telja þeir hvorki Fiskistofu né Umhverfisstofnun hafa farið að lögum.

Héraðsdómur Reykjavíkur heimilaði flýtimeðferð dómsmálsins og stefna var gefin út fyrr í dag. Málið verður þingfest á mánudag.

Vilja ekki stöðva framkvæmdir ekki tefja

„Það er síður en svo verið að tefja framkvæmdir, heldur freista umbjóðendur mínir þess að stöðva með öllu fyrirætlanir sem þau telja ekki eiga nokkurn rétt á sér vegna alvarlegra áhrifa á lífríkið,“ er haft eftir Friðleifi E. Guðmundssyni, lögmanni stefnendanna í tilkynningunni. 

Segir í tilkynningunni að tilgangur málshöfðunarinnar sé að standa vörð um laxastofninn í Þjórsá, vistkerfi árinnar og líffræðilega fjölbreytni auk þess að vernda Viðey í Þjórsá, sem var friðlýst árið 2011.

Kemur einnig fram að skyldan til að vernda laxinn sé bæði á heimavelli og á alþjóðavísu enda sé Norður-Atlantshafslaxinn einstakur og laxastofninn sem gangi í Þjórsá stærsti náttúrulegi laxastofn Íslands og meðal þeirra stærstu við Norður-Atlantshaf. 

Ósjálfbær ásókn í auðlindir

Ísland sé aðili að Laxaverndunarstofnuninni og hafi haft aðild að Alþjóðasamningi Sameinuðu þjóðanna frá 1992 um líffræðilega fjölbreytni. Auk þessa sé Ísland einnig  í Alþjóðanáttúruverndarsambandinu sem í desember setti Norður-Atlantshafslaxinn á lista yfir tegundir í yfirvofandi hættu. Tveir eldislaxar fundust í fyrra í Kálfá, einni hliðaráa Þjórsár.

„Margoft hefur verið varað við áhrifum sem Hvammsvirkjun hefði á laxastofninn í Þjórsá. Engar ráðstafanir sem kynntar hafa verið samhliða virkjun bjarga laxinum,“ segir í tilkynningunni.

„Veiðifélag Þjórsár hefur staðið vörð um laxastofninn og ýmis samtök auk heimafólks hafa á síðustu tveimur áratugum reynt sitt ýtrasta til að koma í veg fyrir að af virkjun verði. Fengu þau m.a. hnekkt leyfum Orkustofnunar og sveitarstjórnar í fyrra. Nú er komið að landeigendum á bökkum Þjórsár að verjast ósjálfbærri ásókn í auðlindir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert