„Þetta náttúrulega endar með ósköpum“

Eiríkur Rögnvaldsson er prófessor emeritus og kallar sig málfarslegan aðgerðasinna …
Eiríkur Rögnvaldsson er prófessor emeritus og kallar sig málfarslegan aðgerðasinna enda hefur hann um árabil verið óþreytandi við að benda á það sem betur mætti fara í hinni eilífu baráttu fyrir tungumáli smáþjóðar sem á undir æ þyngra högg að sækja. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus í íslenskri málfræði, gerir fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2025 til 2029 að umtalsefni í pistli sínum Íslenska í fjármálaáætlun sem birtist á heimasíðu hans í síðustu viku.

Kveður Eiríkur, sem kallar sig málfarslegan aðgerðasinna á síðunni, nýju fjármálaáætlunina síst ánægjulegri lesningu en þá sem á undan fór og var fyrir árabilið 2024 til 2028.

Gagnrýnir Eiríkur að í kafla um málefni innflytjenda og flóttafólks segi að innflytjendum fari fjölgandi og hafi þeir verið 18,7 prósent af heildarmannfjölda á landinu 1. desember 2023. Aðgengi þess hóps að íslenskunámi og samfélagsfræðslu þurfi að vera auðvelt og tryggja þurfi fjölbreyttari leiðir til að læra íslensku og æfa talmál.

Falleg orð, en...

Í kafla um grunnskóla segir að mæta þurfi þörfum barna með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn og barna í viðkvæmri stöðu til að stuðla að auknum jöfnuði í menntun og til að auka virkni þessara hópa í námi og starfi. Svipuð ummæli dregur Eiríkur fram um nemendur framhaldsskóla landsins, á þeim vettvangi segi í áætlun ríkisstjórnarinnar að auka þurfi íslenskukennslu og fræðslu um íslenskt samfélag og veita viðeigandi stuðning.

Eftir því sem Eiríkur best sjái fari þó lítið fyrir fjárveitingum í þessa átt og séu falleg orð, sem taka megi undir, lítils virði sé þeim ekki fylgt eftir með fjárveitingum.

„Nú slæ ég þann varnagla að það er ekkert auðvelt að átta sig á plöggum eins og fjármálaáætlun, fjárlögum og öðru slíku,“ segir prófessorinn og aðgerðasinninn þegar mbl.is nær af honum tali. „Þarna getur ýmislegt leynst sem fer fram hjá manni eins og mér, sem er enginn sérfræðingur á þessu sviði, en ég sá ekki að nein aukning á fjárveitingum til íslensku væri á ferð og nú er ég sérstaklega að hugsa um kennslu í íslensku sem öðru máli,“ heldur hann áfram.

Enginn greiði atkvæði gegn íslensku

Nefnir Eiríkur sérstaklega þingsályktunartillögu um aðgerðaáætlun í málefnum íslenskunnar sem hann vonar að verði samþykkt fyrir þinglok í vor. „Hún er ágæt svo langt sem hún nær, þar er heilmikið af góðum aðgerðum og margar á því sviði að styrkja kennslu í íslensku sem öðru máli. En þetta er auðvitað bara þingsályktun og henni fylgir ekkert fé, hún er bara viljayfirlýsing,“ tekur Eiríkur fram.

Segist hann telja það mikilvægt að í fjármálaáætlun stjórnvalda komi fram kostnaðarmat á einstökum aðgerðum, „það er svo auðvelt fyrir þingmenn að samþykkja eitthvað svona sem enginn veit hvað kostar. Enginn er að fara að greiða atkvæði gegn tillögu um eflingu íslenskunnar en svo er spurningin um kostnaðinn. Ég var að vonast til þess að í þessari fjármálaáætlun kæmi fram að fjármagna ætti þessar aðgerðir myndarlega, en ég bara finn það ekki,“ segir Eiríkur.

Ef við lítum yfir þróunina, finnst þér íslensk stjórnvöld daufheyrast æ meira við kröfum um aukna rétthæð íslenskrar tungu í þjóðfélaginu og þeirri eilífu baráttu sem um þennan málaflokk stendur?

„Ég vil ekki segja það. Ég efast ekkert um góðan vilja menningarmálaráðherra [Lilju Daggar Alfreðsdóttur] í þessum efnum, hún er alveg heil í því,“ svarar Eiríkur, „en spurningin er hversu langt það dugi. Ég nefni það líka í pistlinum að Lilja er núna með tillögu um stórhækkun á starfslaunum listamanna. Hún kemur fram í fjármálaáætlun og það er auðvitað eitthvað sem skiptir máli fyrir íslenskuna, en þessi mikla fjölgun innflytjenda kallar á stóraukna kennslu í íslensku sem öðru máli,“ segir hann enn fremur.

Eiríkur Rögnvaldsson með téðri Lilju Dögg Alfreðsdóttur menningarmálaráðherra sem hann …
Eiríkur Rögnvaldsson með téðri Lilju Dögg Alfreðsdóttur menningarmálaráðherra sem hann hefur miklar mætur á. En hve langt dugir einlægur og góður vilji? Ljósmynd/Aðsend

Eða þá að gera ekki neitt

Í fjárhagsáætluninni megi lesa um mælikvarða og markmið um að ná einhverjum takmörkum eftir ákveðinn tíma, svo sem hversu hátt hlutfall flóttamanna sæki íslenskunámskeið árið 2029.

„En það kemur ekkert fram um hvernig eigi að ná þessum markmiðum og ekkert um að setja eigi aukið fé í það. Miðað við óbreytta atvinnustefnu, sem gengur út á að leggja áherslu á láglaunastörf meira og minna í ferðaþjónustunni og þar með meiri og meiri innflutning fólks, þyrftum við að auka íslenskukennslu stórkostlega og gera fólki þá kleift að læra íslensku á vinnutíma – eða þá að gera ekki neitt sem leiðir til þess að við búum til algjörlega stéttskipt þjóðfélag, íslenskumælandi yfirstétt og svo lágstétt sem hefur ekki fullt vald á íslensku og er föst í láglaunastörfum og börnin að detta út úr skóla. Þetta náttúrulega endar með ósköpum,“ segir Eiríkur Rögnvaldsson með áhersluþunga.

Þetta skilti í flugstöðinni á tímum heimsfaraldurs er eitt af …
Þetta skilti í flugstöðinni á tímum heimsfaraldurs er eitt af því sem Eiríkur hefur gert að umtalsefni enda verið óþreytandi við að benda á hvar misgert er við tunguna. mbl.is/Skúli Halldórsson

Innflytjendum haldi áfram að fjölga og þar með sigi á ógæfuhliðina í málefnum íslenskunnar. Aðra hlið sé hins vegar að finna á þessum peningi – þannig er það oftast nær.

„Þetta er svo viðkvæm umræða þar sem alltaf er stutt í að farið sé að tala um einhverja útlendingaandúð og að maður sé að keyra á einhverri þjóðerniskennd. Ég hef oft talað um að við verðum að finna einhverja leið til að koma til móts við fólkið sem flytur hingað án þess að það verði alltaf á kostnað íslenskunnar,“ segir prófessorinn.

Íslenskan dauðadæmd

Hættan sé sú að það verði alltaf lægsti samnefnari sem gildi. „Nú var verið að tala við fólk niðri í bæ í sjónvarpsfréttum í fyrra um auglýsingar á ensku sem mörgum fundust allt í lagi þar sem með þeim næðist til allra, ferðamannanna og Íslendinga af því að þeir skilja ensku og því væri mun ódýrara að hafa þetta bara á ensku. En ef menn hugsa svona þá er íslenskan dauðadæmd þar sem hægt væri að yfirfæra þetta á öll svið þjóðfélagsins og segja tölum bara ensku af því að það er miklu einfaldara,“ segir Eiríkur og bætir við sögu af manni sem hann átti nýlega orðastað við.

„Ég var að tala við mann sem hefur búið hér í tíu ár og við töluðum saman á ensku. Hann sagðist alveg skilja eitthvað í íslensku en ekki nóg til að geta haldið uppi samræðum. Ég kunni nú ekki við að spyrja hann af hverju hann hefði ekki lært íslensku en auðvitað er svarið þar mjög einfalt: Það er svo auðvelt að búa á Íslandi árum og áratugum saman án þess að læra íslensku,“ segir hann af viðmælanda sínum.

Heil bygging Háskóla Íslands, Edda, er nú vígð íslenskri tungu …
Heil bygging Háskóla Íslands, Edda, er nú vígð íslenskri tungu og ber eftirnafnið Hús íslenskunnar. En leggjum við næga rækt við málið aðra daga en tyllidaga þegar háleit markmið og fagrar hugsjónir blakta í vorþeynum? Ljósmynd/Sigurður Stefán Jónsson

Því sé ekki að undra að hvatningin sé lítil og maðurinn sem Eiríkur vitnar til sé verktaki og bjóðist því ekki tilboð stéttarfélaga um íslenskunámskeið. „Þetta er einmitt vandinn, annars vegar má segja að það sé fínt að fólk eigi auðvelt með að koma hingað og geti strax farið að vinna án þess að eyða löngum tíma í að læra málið. Það er fínt frá sjónarmiði atvinnurekenda en það er ekki eins fínt frá sjónarmiði íslenskunnar,“ segir Eiríkur Rögnvaldsson prófessor emeritus að lokum og við sláum botninn í viðtalið með lokaorðum ívitnaðs pistils á síðu hans:

„En ekki má gleyma því að við eigum óefnislega þjóðarhöll þar sem er íslensk tunga. Hún þarfnast viðhalds og styrkingar – en ef hún hrynur, eða hættir að fullnægja þörfum samfélagsins, er ekki hægt að byggja nýja. Henni veitti ekkert af átta milljarða innspýtingu. Við þurfum að gera betur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert