Alls komu 42 manns að björgunaraðgerðum norðan við Flateyjardal á öðrum tímanum í dag vegna vélsleðaslyss.
Þetta staðfestir Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, í samtali við mbl.is.
Hann segir alla vega tvo einstaklinga hafa verið þar á ferð á vélsleðum og annan þeirra hafa orðið fyrir einhvers konar óhappi. Hann viti þó ekki nákvæmlega með hvaða hætti hann hafi slasast.
„Það var ekki gott símasamband þannig sá sem hringdi inn hafði þurft að fara aðeins frá,“ segir Jón Þór en segir hann að lokum hafa náð sambandi við björgunarfólk
Tvær björgunarsveitir voru í kjölfarið kallaðar út, annars vegar björgunarsveitin Ægir í Grenivík og hins vegar Súlur á Akureyri.
Björgunarsveitarmenn Ægis voru fyrstir á vettvang en notast var við vélsleða og snjóbíl til að komast að mönnunum. Sjúkraflutningamenn frá Akureyri komu einnig á vettvang í för með björgunarsveitarmönnum Súlna.
„Þeir tóku með sér sjúkraflutningamenn frá Akureyri sem hlúðu að einstaklingnum og komu honum fyrir í börum,“ segir Jón Þór. Skömmu síðar kom þyrla landhelgisgæslunnar og flutti þann slasaða til Akureyrar þar sem hann var keyrður á sjúkrahús.
Kveðst Jón Þór ekki geta sagt til um ástand viðkomandi.