Orkustofnun mun að óbreyttu halda afgreiðslu virkjunarleyfis Hvammsvirkjunar áfram þrátt fyrir kæru ellefu landeigenda. Vinna við útgáfu virkjunarleyfis er hafin og stefnt er að því að auglýsa fyrir umsóknir á næstunni.
Þetta segir Sara Lind Guðbergsdóttir, settur orkumálastjóri, í skriflegu svari við fyrirspurn mbl.is.
„Að meginreglu frestar kæra ekki réttaráhrifum stjórnvaldsákvarðana. Að óbreyttu mun Orkustofnun halda afgreiðslu virkjunarleyfisins áfram,“ segir í svarinu.
Lögmaður landeigendanna sagði í samtali við mbl.is að hann vonaðist til þess að Orkustofnun myndi ekki veita virkjunarleyfi til Landsvirkjunar á meðan kæran væri til meðferðar hjá dómstólum.
Þann 10. apríl veitti Umhverfisstofnun heimild til breytinga á vatnshloti vegna fyrirhugaðra framkvæmda við Hvammsvirkjun.
„Í framhaldi af þeirri ákvörðun sendi Landsvirkjun erindi til Orkustofnunar með upplýsingum í samræmi við leiðbeiningar stofnunarinnar frá 16. nóvember 2023. Vinna við útgáfu virkjunarleyfis Landsvirkjunar í samræmi við fyrirliggjandi gögn er hafin og stefnt að auglýsingu umsóknar um virkjunarleyfi í Lögbirtingablaði og vefsíðu Orkustofnunar á næstunni,“ segir í svari orkumálastjóra.
Hún segir að lögbundinn athugasemdafrestur við virkjunarleyfi séu fjórar vikur og að þeim tíma loknum fái Landsvirkjun færi á að bregðast við framkomnum athugasemdum og umsögnum.
Að því loknu hefur Orkustofnun tvo mánuði til að afgreiða virkjunarleyfi.
Landeigendurnir höfða mál gegn íslenska ríkinu og Landsvirkjun og freista þess að fá felld úr gildi með dómi, leyfi sem Fiskistofa veitti árið 2022, og heimild Umhverfisstofnunar fyrir Hvammsvirkjun frá því fyrr í þessum mánuði.