He Rulong, sendiherra Kína á Íslandi, segir viðræður standa yfir um beint flug frá Kína til Íslands. Rætt sé um að það geti orðið að veruleika á næstu þremur til fimm árum en hann vilji sjá það verða að veruleika fyrr.
Þetta kom fram í hádegisverðarboði í kínverska sendiráðinu í gær.
Sendiherrann sagði slíkt beint flug geta skapað margvísleg tækifæri í íslenskri ferðaþjónustu. Þá sé þess að vænta að kínverskum ferðamönnum muni fjölga og metið frá 2019 senn falla en þá voru 139 þúsund brottfarir Kínverja frá Keflavíkurflugvelli, samkvæmt tölum frá Ferðamálastofu.
Sendiherra Kína sagði jafnframt unnið að uppfærslu á fríverslunarsamningi Íslands og Kína.
Hann sagði aðspurður að kínversk fyrirtæki kynnu að sýna því áhuga að byggja upp samgönguinnviði á Íslandi. Nefndi svo umræður um að gera göng til Vestmannaeyja. Þá boðaði sendiherrann tíðari samskipti valdamanna í báðum ríkjum.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag.