Héraðsdómur Reykjaness hefur sakfellt Jóhann Jónas Ingólfsson fyrir hættubrot og brot gegn lögum um brunavarnir og var hann dæmdur í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi.
Í dóminum kemur fram að Jóhann hafi á tímabilinu júlí 2017 til og með júní 2018 látið útbúa búseturými í atvinnurými í Reykjavík án tilskilinna leyfa og án þess að gera nauðsynlegar ráðstafanir varðandi brunavarnir sem voru alls ófullnægjandi auk þess sem í húsinu var bráð íkveikjuhætta.
Þegar Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins skoðaði húsnæðið að beiðni lögreglu kom í ljós að engin brunahólfun var til staðar í húsnæðinu til að takmarka útbreiðslu elds og reyks. Flóttaleiðir voru ófullnægjandi. Loft var klætt auðbrennanlegu plasti og bil veggja og lofts voru fyllt hraðbrennanlegu efni. Ástand raflagna var óásættanlegt og skapaði eldhættu auk þess sem starfssemi sem fór fram í húsnæðinu fól í sér íkveikjuhættu og aukin brunahætta var vegna eldsmatar í húsnæðinu.
Í dómum segir að með þessu hafi Jóhann stofnað í ábataskyni og á ófyrirleitinn hátt lífi og heilsu þeirra manna sem búsettir voru í húsnæðinu í augljósan háska en í það minnsta átta menn voru búsettir í húsnæðinu.
Í þinghaldi þann 10. apríl síðastliðinn játaði ákærði afdráttarlaust sök samkvæmt ákæru.
Jóhann hefur áður hlotið dóm, en árið 2021 dæmdi héraðdómur hann til að greiða 111 milljónir króna í sekt vegna skilasvika og peningaþvættis. Hann var ákærður fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum og peningaþvættis á árunum 2017 og 2018 í tengslum við rekstur einkahlutafélagsins Verktakar Já Art2b, sem eru sömu félög og tengjast útleigustarfseminni sem hann var sakfelldur fyrir núna.