Ósátt við „vettlingagjörning“ Sjálfstæðismanna

Hildur Björnsdóttir, borg­ar­full­trúi og odd­viti Sjálf­stæðis­flokks­ins í borg­ar­stjórn Reykja­vík­ur, leggur …
Hildur Björnsdóttir, borg­ar­full­trúi og odd­viti Sjálf­stæðis­flokks­ins í borg­ar­stjórn Reykja­vík­ur, leggur niður vettlinga í Ráðhúsinu í gær til að mótmæla slæmri stöðu í leikskólum. Árni Sæberg

Stjórn Félags leikskólakennara tekur ekki undir yfirlýsingar stjórnmálafólks þar sem boðaðar eru skyndilausnir sem engu skila. Þess í stað er brýnt að staðið verði við gefin loforð um jöfnun launa milli markaða.

Þetta kemur fram í nýrri ályktun stjórnar FL vegna frétta af vettlingagjörningi borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Fulltrúarnir röðuðu upp 1.600 vettlingum sem að þeirra sögn táknar fjölda barna sem bíða eftir leikskólavist. 

Í ljósi frétta um vettlingagjörning Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkurborgar vill stjórn Félags leikskólakennara taka fram að það er engin formleg vinna í tengslum við kjarasamninga í gangi varðandi skipulagningu skólastarfs í leikskólum og því síður vinna í gangi að skoða að taka 5 ára börn í grunnskóla,“ segir enn fremur í ályktuninni.

Stjórn Félags leikskólakennara leggst gegn hugmyndum sem einhvers konar lausn á vanda leikskólastigsins að taka 5 ára börn í grunnskóla og er það sýn félagsins að það sé ekki börnum fyrir bestu.

„Stjórn Félags leikskólakennara leggur til að í stað innihaldslausra skyndilausna og gjörninga sem engu skila að sveitarfélögin uppfylli að fullu undirritað samkomulag og loforð um jöfnun launa á milli markaða,“ segir enn fremur í ályktun stjórnar Félags leikskólakennara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert