Landsvirkjun telur að heimild Umhverfisstofnunar fyrir Hvammsvirkjun og að leyfi Fiskistofu standist lög.
„Undirbúningur fyrir byggingu Hvammsvirkjunar hefur staðið lengi svo sem kunnugt er. Landsvirkjun fylgdi lögbundnum ferlum við leyfisveitingarferlið og gerir ráð fyrir að málsmeðferð leyfanna sem farið er fram á að verði felld úr gildi – heimild Umhverfisstofnunar til breytingar á vatnshloti og leyfi Fiskistofu – standist lög,“ segir í skriflegu svari Landsvirkjunar við fyrirspurn mbl.is.
Ellefu landeigendur við bakka Þjórsár hafa höfðað mál gegn íslenska ríkinu og Landsvirkjun og freista þess nú að fá felld úr gildi með dómi, leyfi sem Fiskistofa veitti árið 2022, og heimild Umhverfisstofnunar fyrir Hvammsvirkjun frá því fyrr í þessum mánuði.
Landsvirkjun bendir á að frá því að byrjað var að virkja í Þjórsá þá hefur laxastofninn í ánni fjórfaldast og er nú sá stærsti í landinu, að því er kemur fram í skoðanagrein sem Landsvirkjun vísar í.
„Með fram hönnun virkjunarinnar hafa verið gerðar umfangsmiklar rannsóknir til að tryggja áframhaldandi góða fiskigengd. Margir umhverfisþættir verða svo vaktaðir áfram, bæði fyrir og eftir gangsetningu,“ segir í svari Landsvirkjunar.
Landsvirkjun bíður nú eftir frá svari frá Orkustofnun en búið er að sækja um virkjunarleyfi.
Friðleifur Egill Guðmundsson, lögmaður landeigendanna sem stefnt hafa ríkinu, sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að hann vonaðist til þess að Orkustofnun myndi bíða með að veita leyfið á meðan kæran er í meðferð hjá dómstólum.