Skemmtiferðaskip hætt komið nærri Viðey

Norwegian Prima sem siglir undir flaggi Bahama var hætt komið …
Norwegian Prima sem siglir undir flaggi Bahama var hætt komið þann 26. maí á síðasta ári.

Alvarlegt sjóatvik varð skammt frá Viðey skömmu eftir að skemmtiferðaskip með fimm þúsund manns innanborðs lagði úr höfn í Reykjavík þann 26. maí árið 2023.

Skipið sem um ræðir heitir Norwegian Prima og siglir undir flaggi Bahama. Í skýrslu rannsóknarnefndar sjóslysa segir að stífur 50 hnúta vindur hafi gert það að verkum að stjórnendur skipsins misstu tímabundið stjórn á því.

Innan við 10 metra frá grynningum 

Í framhaldinu rak skipið yfir bauju og mesta mildi þykir að hún hafi ekki farið í skrúfur þess. Baujan heitir Hjallaskersbauja og ef keðjur þess hefðu farið í skrúfur skipsins eru allar líkur á því að það hefði misst frekari stjórn. Í framhaldinu rak skipið áfram og fór innan við tíu metra frá grynningum við Viðey. Grynningum þar sem sjávardýpt er einungis 0,4 metrar ef miðað er við stórstraumsfjöru. Atvikið átti sér stað að um 22:30 og allar líkur á því að skipið hefði strandað ef ekki hefði tekist að ná stjórn á því. 

Norwegian Prima komst óskemmt frá atvikinu. Hins vegar komu smávægilegar skemmdir á dráttarbátinn Magna sem gegndi hlutverki við að ýta skipinu frá grynningum.

Tilkynntu ekki atvikið

Fram kemur í skýrslunni að atvikið hafi hvorki verið tilkynnt til Landhelgisgæslunnar né yfirvalda á Bahama. Rannsókn hófst hins vegar að frumkvæði íslenskra yfirvalda og var yfirvöldum í Bahama boðið að taka þátt í rannsókninni sem þau þáðu.

Eins segir að Faxaflóahafnir hafi lækkað veðurviðmið sín eftir atvikið en skipið, líkt og mörg önnur skemmtiferðaskip liggur hátt og tók á sig mikinn vind þennan dag.

Skipstjóri hafi ekki áttað sig á alvarleika málsins

Við rannsókn málsins var notast við gögn úr siglingarrita skipsins og myndefni úr öryggismyndavélum um borð, öryggismyndavélum Faxaflóahafna auk þess sem tekin voru viðtöl við ýmsa menn sem að málinu komu. Þannig mátti endurgera atburðarrásina með hjálp hugbúnaðar.

Í niðurstöðum rannsóknarnefndarinnar kemur fram stjórnendur skipsins hafi búist við vindhraða upp á 25 hnúta en hann reyndist nærri 50 hnútum þegar atvikið átti sér stað.

Eins segir að hafnleiðsögumaður skipsins hafi haft uppi efasemdir um að rétt væri að sigla úr höfn við þessar aðstæður. Hins vegar hafi hann litið svo á að hann hefði ekki vald til þess að fara gegn ákvörðun skipstjóra um að halda af stað. Hann hafi gefið það í skyn við skipstjóra að betra hafi verið að bíða með brottför sem aftur hafi ekki áttað sig á alvarleika málsins.

Búist við fimmföldun í ár 

Í skýrslunni segir að fjórföldun hafi orðið í komum skemmtiferðaskipa á árunum 2014-2023 og að búist sé við fimmföldun frá árinu 2014 á þessu ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert