Skiptir miklu meira máli en fólk grunar

Guðmundur segir að gögn notenda TikTok flæði til Kína.
Guðmundur segir að gögn notenda TikTok flæði til Kína. Samsett mynd/AFP/Antonin UTZ/Ljósmynd/Aðsend

Líklegt þykir að kínverska fyrirtækið ByteDance selji dótturfyrirtækið sitt TikTok þegar lög um um þvingun sölu samfélagsmiðilsins verða undirrituð af Bandaríkjaforseta seinna í dag. Mun það þó líklega ekki hafa mikil áhrif á notendur forritsins.

Þetta segir Guðmund­ur Jó­hanns­son, tæknisérfræðingur og upp­lýs­inga­full­trúi Sím­ans, í samtali við mbl.is.

Áætlað er að Joe Biden Bandaríkjaforseti undirriti lögin í dag, en þau þving­a ByteDance til að losa sig við TikTok á næstu níu mánuðum ell­egar á fyrirtækið yfir höfði sér að TikTok verði bannað í Banda­ríkj­un­um. Biden gaf það út í gær að hann myndi undirrita lögin í dag.

„Segjum að bandarískt fyrirtæki kaupi TikTok – það mun kannski breyta litlu sem engu um TikTok sjálft eða hvernig það virkar,“ segir Guðmundur og útskýrir að þá taki bara nýir eigendur við.

Gögnin flæða til Kína

Hann segir að persónuverndarsjónarmið séu ekki aðalástæða þess að Bandaríkin séu að banna TikTok heldur þjóðaröryggisástæður. Þetta snúist fyrst og fremst um að persónuupplýsingar notenda séu ekki að fara til Kína.

„ByteDance hefur oft sagt að vestræni hluti TikTok sé aðskilinn frá kínverska TikTok – það er ekki sama forritið – og ByteDance hefur alltaf sagt að þessar upplýsingar séu ekki að flæða til Kína. En það hefur margoft lekið út, bæði frá fyrrverandi starfsfólki og öðrum, að þessar upplýsingar hafa vissulega verið að flæða.

Og kínverski eigandinn hefur verið að fletta upp stökum notendum sérstaklega sem hafa þá verið blaðamenn, áhrifafólk eða frægt fólk. Þá bara verið að fylgjast með þessu fólki,“ segir Guðmundur.

Búist er við að Biden skrifi undir lög í dag …
Búist er við að Biden skrifi undir lög í dag sem þvinga sölu TikTok. AFP/Oliver Douliery

ESB muni ekki ganga jafn langt og Bandaríkin

Guðmundur segir jafnframt að Evrópusambandið (ESB) muni líklega ekki grípa til jafn afgerandi lagasetningar en segir þó að ESB hafi haft sínar áhyggjur af TikTok, sérstaklega hvað varðar notkun barna og ungmenna á forritinu.

Hann nefnir að persónuverndarlöggjöfin í Evrópu sé mun yfirgripsmeiri en í Bandaríkjunum og telur ekki líklegt að TikTok verði bannað af ESB.

„Mér finnst ólíklegt að Evrópusambandið muni ganga jafn langt og bandaríska ríkið af því að við erum með fleiri öryggisventla. En það sem mér finnst þá líklegast að gerist er að eitt og eitt ríki innan Evrópu byrji að skoða þessi mál af meiri alvöru,“ segir Guðmundur og bætir við:

„Það væri þá bara af því að þau væru að hugsa um sína hagsmuni í þjóðaröryggi, ekki persónuvernd.“

Telur líklegt að TikTok verði selt

Guðmundur telur líklegt í ljósi þess hversu stór bandaríski markaðurinn er, bæði í notendafjölda og í auglýsingakaupum, að ByteDance muni selja vestrænu útgáfu TikTok.

Ef að bandarískir aðilar kaupa TikTok þá myndi það líklega einnig létta áhyggjur Evrópumanna um þjóðaröryggissjónarmið.

„Bandaríkin eru stærsti markaður TikTok í heiminum, ekki bara út frá notendum heldur líka út frá auglýsendum, þannig að það er mikið í húfi. Þess vegna skiptir þetta miklu meira máli en fólk grunar. Það væri annað ef þetta væri bara Svíþjóð að hugsa um þetta – minni markaður og minna í húfi – en þarna erum við að tala um markað sem skiptir rekstur TikTok mjög miklu máli,“ segir Guðmundur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert