Steinunn Ólína hjólar í Katrínu

Samsett mynd

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir forsetaframbjóðandi skýtur föstum skotum á Katrínu Jakobsdóttur forsetaframbjóðanda í myndbandi á facebook. Segir hún að frumvarp um fiskeldi hafi valdið því að Katrín hafi farið í forsetaframboð.

„Auðsýnt er að fyrrverandi forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, forðaði sér úr stjórnmálunum áður en frumvarp hennar og Svandísar Svavarsdóttur fór til umræðu í þinginu. Þetta gjafakvótafrumvarp ætlar hún að reyna að þvo hendur sínar af með forsetaframboði sínu,“ sagði Steinunn.

Frumvarpið var unnið á meðan Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra var matvælaráðherra og lagt fram á Alþingi 27. mars. Þá var Katrín starfandi matvælaráðherra á meðan Svandís var í leyfi vegna brjóstakrabbameins.

„Þarf ekki að spyrja að leikslokum“

„Það skal enginn velkjast í vafa um að þetta er nýtt gjafakvótakerfi sem deilt verður út með leyfum fjarða á milli sem bæði má selja og leigja áfram meðan birgðir endast,“ segir Steinunn.

Hún segir enn fremur að þetta frumvarp ítreki mikilvægi málskotsrétt þjóðarinnar og að það muni skipta máli hver situr í embætti forseta Íslands þegar frumvarpið fer til atkvæðagreiðslu í þinginu.

„Og verði þá í embætti forseta Íslands Katrín Jakobsdóttir þarf ekki að spyrja að leikslokum. Hver trúir því að hún í embætti forseta Íslands muni hafna frumvarpi því sem var samið af hennar flokksfólki í hennar ríkisstjórn. Hugtakið vanhæfi snýr öðrum þræði að yfirbragði kerfisins. Hafið á að vera yfir allan vafa hvort forseti Íslands sé hæfur þegar kemur að undirritun laga frá Alþingi,“ sagði Steinunn.

Kallar frumvarpið landráðamál

Að lokum skorar hún á fjölmiðla að flytja almenningi „engar fréttir aðrar en þær sem varða þetta óhuggulega, ég leyfi mér að segja, landráðamál sem i uppsiglingu er á Alþingi Íslands“.

Hægt er að horfa á myndbandið í heild sinni á facebooksíðu hennar.

Áður en Steinunn tilkynnti um framboð sitt sagði hún að hún myndi bara bjóða sig fram ef Katrín byði sig fram. Hún bauð sig svo fram fáeinum dögum áður en Katrín tilkynnti um framboð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert