Orkubú Vestfjarða (OV) tapar fimm milljónum á dag vegna skerðingar á afhendingu raforku. Samningur OV og Landsvirkjunar um ótrygga raforku kveður á um heimild til skerðingar í allt að 120 daga. Reiknað er með að þá skerðingardaga þurfi að nýta til fulls.
Elías Jónatansson orkubússtjóri segir að jafnvel megi ekki búast við skerðingarlokum fyrr en um miðjan maí. Hann segir tapið nú stefna í um 600 milljónir, þrefalt meira en við svipaðar aðstæður 2022. Aukning kostnaðar Orkubús Vestfjarða vegna skerðinganna sé meiri en sem nemur öllum rekstrarafgangi af rafkyntum hitaveitum orkubúsins síðustu 10 ár. Með nýrri 30 MW virkjun væri hægt að keyra alla Vestfirði á vatnsafli. Sundlauginni á Hólmavík hefur verið lokað og aðeins er einn heitur pottur opinn ásamt gufubaði. Sigurður M. Þorvaldsson, forstöðumaður eignasjóðs Strandabyggðar, segir að 40 þúsund lítrar af dísilolíu hafi þegar farið í starfsemi sundlaugarinnar.
Helga R. Halldórsdóttir umsjónarmaður íþróttamiðstöðvar segir ástandið skelfilegt – það bitni mest á skólakrökkum. Mögulega þarf að keyra þau um 30 kílómetra leið í sundlaugina Laugarhól í Bjarnarfirði.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag.