„Það þarf að vinna mikinn fjölda upp“

Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri Unicef á Íslandi.
Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri Unicef á Íslandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vitundarvakningu um bólusetningar barna á Íslandi var ýtt úr vör í heilsugæslu Efra Breiðholts í hádeginu í dag.

Unicef, sóttvarnasvið embætti landlæknis og Controlant efndu til vitundarvakningarinnar en bakslag hefur orðið í lykilbólusetningum barna víða um heim á síðastliðnum árum, þar á meðal á Íslandi.

„Við höfum séð þróun bæði erlendis og hér heima í framhaldi af heimsfaraldri Covid-19 þar sem að þátttaka í bólusetningum hefur dregist saman. Um leið og bólusetningarhlutföllin fara minnkandi þá minnkar allsherjarvörnin. Við erum að vonast til þess að ná til allra til þess að fá fleiri í bólusetningu,“ segir Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri Unicef á Íslandi.

Veggspjald á tíu tungumálum

Til að vekja athygli á átakinu hafa Unicef, Controlant og embætti landlæknis útbúið veggspjald á tíu tungumálum með upplýsingum um hvernig hægt er að nálgast upplýsingar um bólusetningar og fara með börnin sín í bólusetningar.

„Með því að fá þetta plakat og þetta myndefni í sem víðtækustu dreifingu á samfélagsmiðlum, þá vonumst við til að ná til allra.“

Gátu ekki sinnt bólusetningunum til lengri tíma

Á tímabilinu sem kennt hefur verið við Covid-19 fengu yfir 67 milljónir barna ekki reglubundnar bólusetningar.

Má bakslagið m.a. rekja til þess að framlínu starfsfólk sem venjulega sinnti reglubundnum bólusetningum gat ekki sinnt þeim í lengri tíma, að sögn Birnu. 

„Það þarf að vinna mikinn fjölda upp og þegar færri börn fá bólusetningar þá minnkar allsherjarvörnin og þá sjáum við sjúkdóma fara aftur á stjá sem annars hefði verið haldið í skefjum með víðtækri bólusetningu,“ segir Birna og heldur áfram:

„Þessir sjúkdómar sem við erum að sjá koma hingað til lands, kíghósti og mislingar – berklar eru sömuleiðis áhyggjuefni annars staðar í Evrópu, þetta eru allt sjúkdómar sem er hægt og er bólusett fyrir. Við þurfum meiri vörn til að þeir nái sér ekki á strik.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert