Vona að Orkustofnun veiti ekki virkjunarleyfi

Landeigendur freista þess að Orkustofnun bíði með að veita virkjunarleyfi …
Landeigendur freista þess að Orkustofnun bíði með að veita virkjunarleyfi fyrir Hvammsvirkjun á meðan málið er til meðferðar hjá dómstólum. Ljósmynd/Landsvirkjun

Landeigendur sem höfðað hafa mál gegn íslenska ríkinu og Landsvirkjun vegna Hvammsvirkjunar leggjast alfarið gegn því að virkjunin verði að veruleika. Binda þeir vonir við að virkjunarleyfi verði ekki veitt af hálfu Orkustofnunar á meðan málið er í meðferð.

Þetta segir Friðleifur Egill Guðmundsson, lögmaður 11 landeigenda sem stefnt hafa ríkinu, í samtali við mbl.is.

Eins og mbl.is hefur greint frá þá freista landeigendur þess að fá fellt úr gildi með dómi, leyfi sem Fiski­stofa veitti árið 2022, og heim­ild Um­hverf­is­stofn­un­ar fyr­ir Hvamms­virkj­un frá því fyrr í þess­um mánuði.

83 dómsskjöl sem telja eitt þúsund blaðsíður

Eru þið að leggjast alfarið gegn því að það komi virkjun þarna, eða er bara eitthvað sem þarf að bæta?

„Virkjunin eins og hún er sett fram telja stefnendur að muni skaða þeirra landareignir og ána sjálfa það mikið og lífríkið í ánni að það þarf að breyta einhverju þar til þess að þau geti fallist á virkjunina. Eins og hún hefur verið lögð fram þá eru þau alfarið á móti virkjuninni,“ segir Friðleifur.

Málið verður þingfest á mánudaginn í næstu viku og þá fær Umhverfisstofnun og Landsvirkjun greinagerðafrest.

„Við báðum um flýtimeðferð út af því að Landsvirkjun er að reyna keyra málið áfram. Vonandi munu þau ekki fara lengra með málið á meðan þetta mál er til meðferðar hjá dómstólum.

Það er spurning hversu hratt dómstólarnir geta hreyft við þessu máli en þetta er umfangsmikið mál, þetta eru 83 dómsskjöl – þúsund síðna. Þannig þetta fer allt eftir því hversu hratt þau stefndu eru að skila sínum greinargerðum, við erum klár að flytja málið á morgun ef út í það er farið.“

„Það myndi vekja furðu“

Hann segir landeigendur telja skorta lagagrundvöll fyrir ákvörðun Umhverfisstofnunar um að veita heimild fyrir Hvammsvirkjun. Hann kveðst vonast til þess að Landsvirkjun fái ekki að hefja framkvæmdir þar sem stefnan er komin fram.

„Mér finnst ólíklegt að þeir muni halda áfram með málið fyrst þessi stefna er komin fram, mjög ólíklegt. Það myndi vekja furðu stefnenda ef að svo yrði.“

Að því sem hann kemst næst þá kemur stefnan ein og sér ekki í veg fyrir það að framkvæmdir geti hafist. Hann segir þó stjórnsýslustofnun ekki vera stætt að leyfa framkvæmdum að hefjast á meðan kæran er til meðferðar.

Landsvirkjun er að sækja um virkjunarleyfi hjá Orkustofnun en Orkustofnun gæti ákveðið að bíða með að veita virkjunarleyfið vegna kærunnar. Friðleifur vonar að svo verði.

Telja ákvörðunina ekki standast skoðun

Friðleifur kveðst vongóður um að þeir muni ná sínu fram fyrir dómi, en málið verður þingfest á mánudag.

„Við teljum að þessi ákvörðun standist ekki skoðun, hún stenst ekki ákvæði laga um stjórn vatnamála – aðallega 18. greinina – og þetta stenst ekki heldur ákvæði stjórnsýslulaga meðal annars. Þannig við erum vongóð um um að stefnendur fái þessari ákvörðun hnekkt og fellda úr gildi,“ segir Friðleifur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert