Kostnaður Alþingis vegna þátttöku í alþjóðastarfi er tæplega 344 milljónir króna síðustu þrjú árin. Þar af var kostnaðurinn rúmar 153 milljónir í fyrra.
Þegar heimsfaraldur covid skall á féllu fundir og ráðstefnur í útlöndum niður. Á þessu tímabili sparaði Alþingi sér háar fjárhæðir. Nú er allt komið í fyrra horf og íslenskir þingmenn sækja mannamót um allan heim. Alþingi tekur þátt í umfangsmiklu samstarfi á alþjóðavettvangi.
Upplýsingar um kostnað við alþjóðastarfið fékk Morgunblaðið hjá skrifstofu Alþingis. Ef upphæðin fyrir árið 2023 er sundurliðuð sést að fargjöld voru 34,4 milljónir, dagpeningar erlendis 40 milljónir, dvalarkostnaður 17,9 milljónir, félagsgjöld 30,1 milljón og annar funda- og móttökukostnaður 30,8 milljónir. Inni í þeirri tölu er kostnaður við fundahald á Íslandi ásamt ýmsu öðru sem fellur til í erlendu samstarfi.
Þeir þingmenn sem fengu hæstar greiðslur vegna alþjóðastarfs árið 2022 eru, frá hæsta til lægsta:
Bjarni Jónsson, Bryndís Haraldsdóttir, Njáll Trausti Friðbertsson, Birgir Þórarinsson, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Jóhann Friðrik Friðriksson, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Hanna Katrín Friðriksson, Logi Már Einarsson og Oddný G. Harðardóttir.
Þeir þingmenn sem fengu hæstar greiðslur árið 2023 eru, frá hæsta til lægsta:
Bjarni Jónsson, Hanna Katrín, Þórhildur Sunna, Diljá Mist Einarsdóttir, Birgir Þórarinsson, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, Jóhann Friðrik, Þorgerður Katrín, Bryndís Haraldsdóttir og Njáll Trausti.
Flestir þessara þingmanna gegna formennsku í nefndum sem krefjast mikilla ferðalaga, að því er fram kemur í skriflegu svari frá Alþingi.
Hægt er að nálgast mun ítarlegri umfjöllun um málið í Morgunblaðinu í dag.