Pétur Einarsson, leikari, leikstjóri og fyrrverandi skólastjóri Leiklistarskóla Íslands er látinn 83 ára að aldri. Hann andaðist á hjúkrunarheimilinu Mörk þann 24. apríl.
Pétur fæddist 31. október 1940 í Vestmannaeyjum, sonur Einars Guttormssonar læknis og Margrétar Kristínar Pétursdóttur húsmóður. Pétur lauk námi frá Leiklistarskóla LR og stundaði leiklistarnám í Háskólanum í Georgíu í Bandaríkjunum.
Pétur kom víða við á ferlinum en hann vann lengst af hjá Leikfélagi Reykjavíkur. Hann lék á tíunda tug hlutverka í leiksýningum félagsins. Má þar nefna Dúfnaveisluna, Atómstöðina, Selurinn hefur mannsaugu, Pétur og Rúna og Hart í bak.
Hann lék Greger Werle í Villiöndinni árið 1975, titilhlutverkið í Makbeð ári síðar og aðalhlutverkið í Sölumaður deyr árið 2002. Síðasta hlutverk hans var þjónninn í Kirsuberjagarðinum árið 2011. Pétur var valinn heiðursfélagi Leikfélags Reykjavíkur 2017.
Pétur lék einleikinn Býr Íslendingur hér? hjá Íslenska leikhúsinu árið 1993 og fór með sýninguna í leikferð til Þýskalands og lék hana á þýsku.
Helstu hlutverk hans í sjónvarpi voru Loftur í Galdra-Lofti árið 1970 og Gunnar í Degi vonar árið 1988.
Pétur leikstýrði fjölda verkefna meðal annars Poppleiknum Óla, rokkóperunni Súperstar og Lokaæfingu.
Pétur var fyrsti skólastjóri Leiklistarskóla Íslands eftir stofnun hans árið 1975. Hann gegndi þeirri stöðu til ársins 1983 og byggði þar upp grunn að leiklistarmenntun á Íslandi, sem fluttist síðar yfir í Listaháskóla Íslands. Hann kenndi leiktúlkun bæði meðan hann var skólastjóri og síðar.
Pétur var í leikhúsráði Leikfélags Reykjavíkur, stofnfélagi Félags leikstjóra á Íslandi og formaður þess um tíma, formaður Sambands félaga leikstjóra á Norðurlöndunum, formaður Leiklistarráðs, ritari Leiklistarsambands Íslands og fulltrúi Íslands í stjórn Norræna leiklistarsambandsins. Hann sat um tíma í stjórn Bandalags íslenskra listamanna, Listaháskóla Íslands og Kvikmyndasjóðs auk þess sem hann var fulltrúi Íslands í Norrænu leiklistarnefndinni.
Um langt skeið vann Pétur við að hjálpa fólki að hætta að reykja með aðferð Allen Carr, The Easy Way to Stop Smoking.
Eftirlifandi eiginkona Péturs er Birgitte Heide, listdansari og kennari hjá Listdansskóla Íslands. Pétur lætur eftir sig sex börn og ellefu barnabörn.