Kindurnar bera úti og lömbin drepast

Nýborin kind.
Nýborin kind. Ljósmynd/Steinunn Árnadóttir

Steinunni Árnadóttur dýraverndunarsinna blöskrar slæm meðferð á kindum á sveitabæ í Borgarfirði sem standa úti allan ársins hring og bera nú eftirlitslaust í vorhretinu er sauðburður er genginn í garð.

Hún hefur margsinnis tilkynnt meðferðina á búfénu til Matvælastofnunar án þess að brugðist sé við með fullnægjandi hætti. Enn standa kindurnar úti og hafa þónokkur nýborin lömb drepist.

Ljósmynd/Steinunn Árnadóttir

„Þetta er búinn að vera ljótur blettur á bændastéttinni og sveitarfélaginu í langan langan tíma,“ segir Steinunn.

„Það virðist vera að það sé opið inn í einhver hús. En þær eru náttúrulega bara úti – kindur svo sem vilja hafa aðstöðu úti, þær eru með þessa ull og halda vel á sér hita en þegar sauðburður er og það er frost og það er rigning og það er snjór og rok, og þær eru að bera úti – það er eitthvað sem samræmist ekki lögum um velferð dýra. Engan veginn. Þá eiga þær að njóta skjóls.“ 

Ber bein blöstu við

Steinunn birti á dögunum myndir þar sem minnst ein kind var komin að burði og önnur kind virðist nýborin. Þá má sjá lömb, þar af eitt sem virðist liggja dautt.

Að sögn Steinunnar voru nokkrar kindur í miðjum burði er hún keyrði fram hjá búfénu. Enginn fylgdist þó með nema hrafninn sem gæddi sér á einu lambi. Segir hún ber bein hafa blasað við.

Steinunn segir umráðamenn dýranna reglulega hirða upp lambshræ.
Steinunn segir umráðamenn dýranna reglulega hirða upp lambshræ. Ljósmynd/Steinunn Árnadóttir

„Þær eru að bera algjörlega eftirlitslaust, það er enginn sem fylgist með þarna,“ segir Steinunn sem fullyrðir jafnframt að umráðamenn dýranna hirði reglulega upp lambshræin.

„Það er eftirlitið sem þessar skepnur fá.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert