Myndskeið: Björgunarsveitarmanni bjargað

Nóg var að gera í dag hjá björgunarsveitum en myndband sem hér fylgir sýnir frá þremur mismunandi útköllum sem sinnt var sumardaginn fyrsta.

Björgunarsveitarmaður velti vélsleða sínum við Háskerðing, norðan Mýrdalsjökuls stuttu fyrir klukkan 14 í dag.

Þar var á ferð hópur björgunarsveitarfólks, en þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð til, ásamt björgunarsveitum, að því er segir í tilkynningu frá Slysavarnarfélaginu Landsbjörg.

Þar segir að sleðahópur frá Flugbjörgunarsveitinni í Reykjavík hafi verið skammt undan og fór hann strax á slysstað.

„Þyrla Landhelgisgæslu var einnig á flugi ekki langt frá slysstað og var því fljót á staðinn,“ segir í tilkynningunni.

Ekki liggja fyrir upplýsingar um líðan mannsins en hann var fluttur með þyrlunni á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi. 

Frá björgunaraðgerðum við Háskerðing í dag.
Frá björgunaraðgerðum við Háskerðing í dag. Ljósmynd/Landsbjörg

Smábátur bilaði undir Svörtuloftum

Björgunarsveitir höfðu í nógu öðru að snúast í dag. Björgunarskipið Björg á Rifi var kallað út til aðstoðar smábáts sem hafði bilað undir Svörtuloftum á Snæfellsnesi.

Báturinn var tekinn í tog til hafnar á Rifi. Ekkert amaði að skipsverjum. 

Smábátur sem hafði bilað undir Svörtuloftum á Snæfellsnesi var tekinn …
Smábátur sem hafði bilað undir Svörtuloftum á Snæfellsnesi var tekinn í tog. Ljósmynd/Landsbjörg

Féll í Glymsá

Björgunarfélag Akraness aðstoðaði mann sem hafði lent í sjálfheldu við gönguleiðina upp að Glym í hádeginu í dag.

Hann hafði ætlað að vaða Glymsá þegar hann féll í ána, en komst sjálfur upp úr á hinum bakkanum. Hann hafði ekki áttað sig á straumþunga árinnar og treysti sér ekki til baka.

„Björgunarfólk fór yfir ána með þurrbúning sem þau klæddu manninn í og aðstoðuðu hann aftur yfir.“

Björgunarfélag Akraness aðstoðaði mann sem hafði lent í sjálfheldu við …
Björgunarfélag Akraness aðstoðaði mann sem hafði lent í sjálfheldu við gönguleiðina upp að Glym. Ljósmynd/Landsbjörg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert