Shakespeare fannst í skókassa

Indriði Einarsson, hagfræðingur og leikskáld. Forsíða handrits hans að þýðingu …
Indriði Einarsson, hagfræðingur og leikskáld. Forsíða handrits hans að þýðingu á Vetrarævintýri eftir Shakespeare. Samsett mynd

Heimildir eru fyrir því að Indriði Einarsson (1851-1939), hagfræð­ingur og leikskáld, hafi þýtt fjórtán leikrit eftir Shakespeare. Átta eru varðveitt á Leikminjasafninu en sex voru talin glötuð. Merkisfundur varð því þegar handritin fundust nýverið í fórum afkomenda Indriða.

Verða þau formlega afhent Landsbókasafninu til varðveislu á laugardag, 27. apríl, og verður af því tilefni efnt til dagskrár á Nýja sviði Borgarleikhússins.

Flutt verða erindi um Indriða og Shakespeare-­þýðingar hans, sungin lög við ljóð Indriða og leikarar Leikfélags Reykjavíkur lesa atriði úr nýfundnum þýðing­unum Indriða. Dagskráin er opin almenningi og hefst hún kl. 13.

Ert ÞÚ með kassann? 

Guðrún Pétursdóttir lífeðlisfræðingur er afkomandi Indriða og mun halda erindi um langafa sinn. Hún segir frá fundi handritanna í Morgunblaðinu í dag. 

Þegar Þórarinn Eldjárn var að þýða Jónsmessunæturdraum fyrir nokkrum árum, hafði hann samband við Guðrúnu og spurði hvort hún vissi hvar þýðingar Indriða sem ekki eru á Landsbókasafni væru. „Ég hafði ekki hugmynd, vissi ekki einu sinni að það vantaði verk,“ segir hún.

„Skömmu síðar hitti ég frænda minn Hörð Bjarnason sendiherra. Hann sagðist vera í smá vanda því hann hefði fundið kassa fullan af stílabókum langafa okkar, sem innihéldi Shakespeare-þýðingar. „Ert ÞÚ með kassann?” spurði ég, eins og ég hefði leitað hans árum saman.“

Fyrsta íslenska uppsetningin 

Á laugardag mun Ingibjörg Þóris­dóttir flytja erindi um Shakespeare-­þýðingar Indriða. Doktorsritgerð hennar mun fjalla um Matthías Jochums­son og fyrstu Shakespeare-þýðingarnar á Íslandi, en þar kemur Indriði við sögu.

„Þetta er gífurlegur fengur fyrir íslenskar leikhúsþýðingar að fá þetta í hendur,“ segir hún.

„Indriði var sá fjórði í röð ­íslenskra þýðenda á Shakespeare, á eftir Matthíasi Jochums­syni, Steingrími Thorsteinssyni og Eiríki Magnússyni, en Indriði var sá fyrsti sem rataði á svið. Fyrsta íslenska uppsetningin á leikriti eftir Shakespeare var sett upp hjá Leikfélagi Reykjavíkur 23. apríl 1926. Það var Þrettándakvöld í þýðingu Indriða og í leikstjórn nafna hans og barnabarns, Indriða Waage.“

Lengri umfjöllun um málið má finna á menningarsíðum Morgunblaðsins í dag, fimmtudag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka