Steinþór Guðbjartsson
Arna Thoroddsen hóf nám í dýrahjúkrun í Tækniskólanum Hansenberg í Kolding í Danmörku í ársbyrjun og vinnur nú á Dýralæknastofu Dagfinns á Skólavörðustíg og er það hluti námsins.
Hún segist lengi hafa stefnt að því að verða dýralæknir, keyra á milli sveita og hesthúsa og sinna hestum, en eftir að hafa unnið á Dýralæknamiðstöðinni í Grafarholti og fengið upplýsingar um dýrahjúkrunarnámið hafi hún ákveðið að byrja á því. „Mér fannst mjög skemmtilegt að vinna á spítalanum og féll alveg fyrir þessum námsmöguleika, fannst hann mjög spennandi.“
Dýr hafa heillað Örnu frá æsku. „Ég ólst upp með hestum,“ útskýrir hún. Áhuginn á hestamennsku hafi reyndar aðeins minnkað á unglingsárunum en þá hafi hún hænst þeim mun meira að hundum. „Ég hef alltaf verið sjúk í hunda og á óskalista mínum var hundur alltaf í 1., 2. og 3. sæti. Eftir að ég eignaðist hund langaði mig bara í fleiri. Ég hef alltaf haft áhuga á dýrum og viljað vinna með dýrum.“
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í gær, miðvikudag.