Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu innsiglaði skemmtistaðinn Exit og Nýju vínbúðina fyrr í dag. Eins og fram hefur komið innsiglaði lögregla einnig skemmtistaðinn B5 við Bankastræti 5 í dag.
Allar rekstrareiningarnar eiga það sameiginlegt að vera í eigu Sverris Einars Eiríkssonar.
Nýja vínbúðin er netverslun með áfengi og hefur hún verið rekin í sama húsnæði og Brim hótel sem einnig er í eigu Sverris. Hótelinu var ekki lokað.
Að sögn Unnars Más Ásþórssonar, aðalvarðstjóra hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, var starfsfólk að störfum í Nýju vínbúðinni þegar lögreglu bar að garði og var þeim vísað frá.