Hvað gerist nú hjá landskjörstjórn?

Kristín Edwald, formaður landskjörstjórnar.
Kristín Edwald, formaður landskjörstjórnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta gekk bara afar vel fyrir sig og bara mjög ánægjulegt í alla staði,“ svarar Kristín Edwald, formaður landskjörstjórnar, spurð hvernig gekk í dag er frambjóðendur skiluðu inn forsetaframboðum sínum.

Á mánudaginn klukkan 11 mun stjórnina úrskurða um gildi framboðanna á fundi sínum í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands.

Alls mættu tólf frambjóðendur í Hörpu fyrir hádegi til þess að skila inn framboðum sínum. Einn gerði það rafrænt. 

Kristín segist ekki vita til þess að áður hafi svo margir skilað inn framboðum.

20 klukkustundir til að kæra 

Um helgina mun landskjörstjórn því fara yfir hvort að öll formskilyrði framboðanna 13 séu uppfyllt. Framboðum skal fylgja tilkynning um framboð, undirritað samþykki frambjóðenda fyrir því að fara í framboð og 1.500 til 3.000 meðmæli kosningabærra manna. 

Landskjörstjórn mun meðal annars fara yfir meðmælendurna, en hver kjósandi má einungis mæla með einum frambjóðenda. Þá er gerð krafa um ákveðinn fjölda meðmælenda í hverjum landsfjórðungi. 

Eftir úrskurð landskjörstjórnar hafa frambjóðendur 20 klukkustundir til að kæra úrskurðinn. Úrskurðarnefnd kosningamála mun síðan fara yfir þær kærur, ef einhverjar verða. 

Frambjóðendur auglýstir eigi síðar en 2. maí

30 dögum fyrir kjördag auglýsir landskjörstjórn síðan hverjir eru í kjöri, eða eigi síður en 2. maí. Sama dag hefst kosning utan kjörfundar. 

31. maí lýkur kosningu utan kjörfundar erlendis og 1. júní eru síðan almennar kosningar, þá lýkur einnig kosningum utankjörfundar innanlands. 

Kjörtímabili Guðna Th. Jóhannessonar lýkur síðan 31. júlí og nýr forseti tekur við 1. ágúst. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert