Leggjast gegn hernaðarstuðningi við Úkraínu

Guttormur Þorsteinsson, formaður Samtaka hernaðarandstæðinga.
Guttormur Þorsteinsson, formaður Samtaka hernaðarandstæðinga. Mynd úr safni

Sam­tök hernaðarand­stæðinga [SHA] segja að þings­álykt­un­ar­til­laga um stuðning Íslands við Úkraínu árin 2024 til 2028 sé kúvend­ing á stefnu Íslands.

SHA segja að sá hluti til­lög­unn­ar og grein­ar­gerðar­inn­ar sem lýt­ur hernaðarstuðningi við Úkraínu, van­v­irði samþykkta þjóðarör­ygg­is­stefnu Íslands og gildi Íslands.

Þetta kem­ur fram í álykt­un frá SHA.

Segja hernaðarstuðning brjóta niður efna­hag

„Í þess­ari stefnu felst sú kúvend­ing á stefnu Íslands að hverfa frá því að taka ekki bein­an þátt í styrj­öld­um með fjár­mögn­un eða öðrum hernaðarstuðningi,“ seg­ir í til­kynn­ing­unni.

Sam­tök­in segja að þrátt fyr­ir að til­lag­an sé að koma núna til kasta þings­ins þá hafi full­trú­ar Íslands fylgt þess­ari stefnu í raun í ein­hvern tíma. Það hafi meðal ann­ars komið fram í samþykkt yf­ir­lýs­inga á leiðtoga­fundi NATO í Viln­íus, höfuðborg Litáens, í júlí 2023, þar sem samþykkt­ur var marg­vís­leg hernaðarstuðning­ur í stríðinu.

„Þá er þegar í fjár­lög­um fyr­ir árið 2024 gert ráð fyr­ir 1 millj­arðs kr. efna­hags- og mannúðarstuðningi við Úkraínu með vinstri hendi, en jafn­framt að leggja svo með hægri hendi fram 750 millj­ón­ir til viðbót­ar til hernaðarstuðnings sem brýt­ur niður efna­hag og manns­líf,“ seg­ir í álykt­un­inni.

Hafna fjár­mögn­un á stríðsrekstri 

SHA seg­ir að stefn­an sé á bein­an hátt að hvetja ís­lensk fyr­ir­tæki til að flytja her­gögn og að fram­leiða vör­ur fyr­ir heri. Þá gagn­rýna sam­tök­in einnig það að Land­helg­is­gæsl­an þjálfi úkraínska sjó­liða og segja að hlut­leysi ís­lenskra björg­un­araðila sé þar með ógnað.

Þá segja sam­tök­in að hvergi sé að finna aðgerðir sem stuðla að friðsam­legri lausn deilu­mála, af­vopn­un, né vopna­hlés.

Sam­tök­in kveðast styðja við það að veita Úkraínu­mönn­um mannúðaraðstoð og hæli hér á landi. Einnig eigi Ísland að veita póli­tísk­an stuðning og stuðning til end­urupp­bygg­ing­ar innviða.

„SHA hafna hins veg­ar al­farið öll­um aðgerðum og fjár­mögn­un Íslands á stríðsrekstri í Úkraínu. All­ur sá hluti þess­ar­ar þings­álykt­un­ar­til­lögu Alþing­is og grein­ar­gerðar­inn­ar með henni sem lýt­ur að þátt­töku Íslands í hernaði í Úkraínu, van­v­irðir bæði samþykkta þjóðarör­ygg­is­stefnu fyr­ir Ísland og þau gildi sem Ísland hef­ur haft í heiðri um að vinna að friði og taka ekki þátt í stríði. Þar er á ósvíf­inn hátt verið að vefja hernaðarþátt­töku inn í sáraum­búðir,“ seg­ir í til­kynn­ing­unni. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert