Viktor Traustason er einn þeirra sem óvænt skilaði inn undirskriftum í Hörpu í dag. Verði listinn dæmdur gildur er hann sá tólfti í framboði. Í það minnsta ef miðað er við þá sem telja sig vera með nægjanlega margar undirskriftir gildar.
Hann telur sig vera með nægjanlega margar en sé þó ekki alveg viss um það hvort undirskriftir á Norðurlandi séu allar gildar.
„Miðað við mína talningu þá er ég yfir. Ég efast ekki um að dómsmálaráðuneytið eigi eftir að henda slatta af þeim. Ég vona að ég sé með nógu mikinn „böffer.“ Ég var verstur í Norðurlandsfjórðungi. Það má ekkert fara úrskeiðis þar," segir Viktor.
Af hverju heldur þú að einhverjum undirskriftum verði hent út?
„Ég er með allar mínar undirskriftir handskrifaðar frá fólki sem ég hef hitt í eigin persónu og sagt fyrir hvað ég stend,“ segir Viktor.
Af hverju ertu í framboði?
„Því mér finnst vanta alvöru stefnumál sem snúa að valdsviði forseta."
Og þú heldur að þú sért rétti maðurinn í verkið?
„Það er í það minnsta enginn annar að velta þessu upp og því þurfti ég að taka þetta að mér,“ segir Viktor.