Rannsókn lögreglunnar á Suðurlandi á andláti í sumarhúsi í Kiðjabergi miðar vel, að sögn Jón Gunnars Þórhallssonar, yfirlögregluþjóns á Suðurlandi.
Hinn látni er karlmaður á fertugsaldri frá Litháen.
Lögregla rannsakar nú atburðarásina og standa skýrslustökur yfir.
„Erum að rannsaka þetta sem manndrápsmál og erum að tala við alla, síðan þurfum við bara að sjá þegar fram í sækir,“ segir Jón Gunnar.
Áfram eru fjórir með stöðu sakbornings og sæta tveir þeirra gæsluvarðhaldi til 30. apríl á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Eru sakborningarnir fjórir samlandar hins látna.
Jón Gunnar vildi ekki tjá sig um það hvort játning liggi fyrir í málinu og sagðist ekki geta farið út í nein smáatriði eins og er.
Að svo stöddu býst hann ekki við því að óska þurfi eftir aðstoð erlendis frá við rannsókn málsins.