Lögreglan á Suðurnesjum biðlar til fólks að fara ekki fótgangandi að eldgosinu við Sundhnúkagígaröðina. Þetta kemur fram í Facebook-færslu lögreglunnar nú undir miðnætti.
Aðvörun þessi fylgir í kjölfar frétta af vaxandi kvikusöfnun við Svartsengi. Eins og fram kom á mbl.is í dag segir Veðurstofan að haldi kvikusöfnun áfram á svipuðum hraða eru meiri líkur á því að kraftur eldgossins á Sundhnúksgígaröðinni aukist verulega. Það gæti falið í sér að nýjar gossprungur opnast á svæðinu milli Stóra-Skógfells og Hagafells og/eða að núverandi gosop stækki vegna skyndilegrar aukningu í hraunflæði
Segir lögregla að fyrirvari að slíku gæti orðið stuttur. „Við viljum því biðla til fólks að fara ekki fótgangandi að gosinu,“ segir í tilkynningunni.