Heiðar Örn Sigurfinnsson, fréttastjóri Rúv, segir í Facebook-færslu að fréttaskýring Maríu Sigrúnar Hilmarsdóttur fréttamanns hafi ekki verið fullbúin til sýningar og því ekki sýnd í síðasta þætti Kveiks þennan vetur. Engin annarleg sjónarmið hafi búið að baki.
Færsluna ritar Heiðar Örn í ljósi umfjöllunar Vísis um að krafta Maríu Sigrúnar væri ekki lengur óskað í Kveik.
Hún birti meðal annars mynd á X af þáttastjórnendum Kveiks og hafði tekið sjálfa sig af myndinni.
„Í dag og í gær hafa birst fréttir þess efnis að fréttaskýring sem var í vinnslu fyrir fréttaskýringaþáttinn Kveik og átti að sýna síðasta þriðjudag hafi verið tekin af dagskrá og jafnframt látið að því liggja að annarleg sjónarmið búi að baki. Það á ekki við nein rök að styðjast,“ segir í færslu Heiðars Arnar.
Hann segir að fréttaskýringin hafi verið unnin um skeið en ekki verið tilbúin til sýningar og því buðu stjórnendur fréttastofu Rúv að fréttaskýringin yrði sýnd í Kastljósi ef næðist að klára hana.
„Að öðru leyti mun ég ekki tjá mig um þetta starfsmannamál eða vitna í trúnaðarsamtöl.“
Í samtali við mbl.is í gær staðfesti Heiðar Örn að María Sigrún væri ekki lengur í ritstjórn Kveiks.
Þá greindi hann frá breytingum á skipulagi fréttadeildar Rúv.