Færri nota rafhlaupahjól eftir djammið

Færri nota nú rafhlaupahjól eftir að hafa neytt áfengis en …
Færri nota nú rafhlaupahjól eftir að hafa neytt áfengis en síðustu ár. Fjöldi alvarlegra slysa hefur samhliða því dregist saman. mbl.is/Kristinn Magnússon

Færri nota nú rafhlaupahjól eftir að hafa neytt áfengis og þá hefur slysum á rafhlaupahjólum fækkað samhliða þessu. Fjölmiðlaumfjöllun og herferð gegn áfengisakstri virðast hafa skilað góðum árangri.

Þetta er meðal þess sem sjá má úr niðurstöðum könnunar sem Samgöngustofa lét gera og úr slysatölum sömu stofnunar fyrir síðasta ár. Í fyrra setti Samgöngustofa í loftið auglýsingaherferð þar sem hamrað var á skaðlegum afleiðingum þess að halda af stað ölvaður á rafhlaupahjólum. Hafði fjöldi slysa á slíkum tækjum skotist upp árin þar á undan eftir að vinsældir farartækisins jukust gríðarlega.

Samkvæmt könnuninni, sem framkvæmd var í október í fyrra, lækkar hlutfall þeirra sem segjast hafa notað rafhlaupahjól undir áhrifum áfengis síðustu sex mánuði úr 29,1% í 22,4%. Þetta er lækkun um tæplega 7 prósentustig milli ára.

Graf/mbl.is

Flest alvarleg slys á rafhlaupahjólum eru áfram meðal barna sem eru ekki komin með bílpróf og svo um helgar hjá fólki sem er ölvað. Meirihluti þeirra er ungt fólk á leiðinni heim af djamminu.

Heildarfjöldi slysa á rafhlaupahjólum var 130 í fyrra og lækkar um 26% milli ára, eða úr 176 slysum. Alvarlegum slysum fækkar enn meira, eða um 35%. Fara þau úr 48 slysum árið 2022 niður í 31 slys í fyrra.

Á sama tíma hefur lítil breyting orðið á slysum á reiðhjólum, rafmagnsreiðhjólum eða öðrum virkum ferðamátum á milli ára. Er heildarfjöldi slysa á þessum farartækjum 80 á síðasta ári samanborið við 73 árið áður. Þá voru alvarleg slys 35 í fyrra samanborið við 33 árið 2022.

Graf/mbl.is

Breytt hegðun eftir umfjöllun

Gunnar Geir Gunnarsson, deildarstjóri öryggis- og fræðsludeildar hjá Samgöngustofu, segir að hjá stofnuninni telji menn að herferð sem ráðist var í fyrra undir yfirskriftinni „ekki skúta upp á bak“ hafi valdið bæði beinum áhrifum, en líka vakið umræðu í þjóðfélaginu sem hjálpi til að draga úr notkun undir áhrifum til lengri tíma.

„Það var mikil umræða með áþreifanlegum dæmum um fólk sem hafði farið illa út úr því að nota þessi tæki undir áhrifum,“ segir Gunnar. „Við vonum að þessi breyting sé komin til að vera.“ Hann tekur fram að fækkun milli ára um 7 prósentustig þegar kemur að því að reyna að breyta slæmri hegðun teljist mjög góður árangur í forvarnarstarfi. „Það er frábært að geta lækkað þetta svona milli ára.“

Gunnar Geir Gunnarsson, deildar- stjóri öryggis- og fræðsludeildar Samgöngustofu.
Gunnar Geir Gunnarsson, deildar- stjóri öryggis- og fræðsludeildar Samgöngustofu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Árin 2021 og 2022 voru nánast eins þegar kom að slysum á rafhlaupahjólum og að sögn Gunnars var þá lítil opinber umræða um hversu alvarlegar afleiðingarnar geta orðið. Áhrifin séu hins vegar að koma sterk í gegn og segist hann telja að herferðin og umræðan hafi haft mikil áhrif.

Þegar umræða um slæma hegðun kemst í opinbera umræðu segir Gunnar að fólk byrji sjálfkrafa að breyta hegðun sinni því það vilji ekki taka þátt í hegðun sem sé almennt fordæmd. „Við heyrum að þetta þykir ekki sjálfsagt eins og kannski var áður. Það er það sem þurfti. Fólk þarf að átta sig á þessu sjálft frekar en að vera að fara í harða lagasetningu.“ Telur hann að fólk skammist sín í dag fyrir að fara um ölvað á rafhlaupahjólum.

Vilja fækka slysum árlega um 5%

Gunnar segir að í þessu tilfelli hafi skipt miklu máli að fólk hafi stigið fram og sagt sögu sína eftir slys, en nokkur dæmi voru um það í fjölmiðlum á síðasta ári og þá sérstaklega í kringum herferðina. Segir hann að í ár verði haldið áfram með þessa herferð og hamrað á skilaboðunum þegar mesta notkun tækjanna er í gangi yfir sumarið. Segir hann þetta svipað verkefni og þegar erlendum ferðamönnum fjölgaði og slysum með þeim. „Með fjölgun þarf að setja meira púður í að koma í veg fyrir slysin.“

Spurður um raunhæft markmið við að ná niður slysum sem þessum segir Gunnar að auðvitað vilji hann vera með núllsýn um slys, en að raunhæft sé að horfa til þess að fækka alvarlegum slysum um 5% á ári, jafnvel þótt notendum fjölgi. Könnun Samgöngustofu var framkvæmd af Gallup í október í fyrra. Í úrtaki voru 1.873 af landinu öllu, 18 ára og eldri. Svarhlutfall var 58%, eða 1.079.

Greinin birtist fyrst í Hjólablaði Morgunblaðsins sem lesa má í heild hér:

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert