María Sigrún Hilmarsdóttir fréttamaður segist alltaf hafa ætlað að klára innslag sitt í Kveik sem var endanlega tekið af dagskrá. Auðvelt hefði verið að hjálpast að ef tímaþröng var vandamál.
Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum síðasta sólarhring er María Sigrún ekki lengur hluti af ritstjórn Kveiks, þar sem krafta hennar var ekki lengur óskað. Fréttaskýring sem hún vann fyrir fréttaskýringaþáttinn Kveik og átti að sýna síðasta þriðjudag var einnig tekin af dagskrá.
Heiðar Örn Sigurfinsson, fréttastjóri Rúv., skrifaði á Facebook í dag að fréttaskýringin hefði ekki verið „fullbúin til sýningar“. Því hafi stjórnendur boðið fréttastofu Rúv. að málinu yrði fundinn farvegur í Kastljósi, ef næðist að klára að vinna það. Engin annarleg sjónarmið hafi búið að baki.
María birti sjálf Facebook-færslu nokkrum tímum síðar þar sem hún rekur söguna. Hún segist hafa skilað fyrsta uppkasti að handriti að þættinum sínum til ritstjóra og pródúsents fimmtudagskvöldið 11. apríl, 12 dögum fyrir áætlaða sýningu innslagsins.
Um hádegi á sunnudag 14. apríl hafi hún spurt hvernig gengi en fengið þau svör frá ritstjóra þáttarins að hann hefði tekið fyrstu „klippuna” og sýnt hana fréttastjóra og ritstjóra fréttatengdra þátta.
„Þeim var sumsé sýnt efnið áður en ég hafði séð það sjálf og án minnar vitundar og samþykkis. Slík vinnubrögð eru framandi fyrir mér. Þetta þótti mér miður. Mat fréttastjóra og ritstjóra Kveiks var að ekki næðist að fullvinna efnið í tæka tíð og ef ég sæi það ekki sjálf ætti ég ekki erindi í rannsóknarblaðamennsku,“ skrifar María.
„Minn hugur stóð alltaf til að klára þetta innslag og vinna það á staðnum og úr fjarvinnu eins og fordæmi eru fyrir og í þéttu og miklu samstarfi við pródúsent og ritstjóra,“ skrifar hún enn fremur.
Að hennar mati hefði tekist að klára innslagið ef vilji hefði staðið til.
„Á þessum tíma voru fimm af níu starfsmönnum Kveiks að undirbúa efni fyrir næstu þáttaröð sem hefst í september. Auðvelt hefði verið að hjálpast að ef tímaþröng var vandamál.“