Agnar Már Másson
Virknin í gígnum í eldgosinu við Sundhnúkagígaröðina er stöðug og hefur enn ekki aukist til muna þrátt fyrir hraða kvikusöfnun undir eldgosinu.
„Þetta hefur verið mjög svipað síðustu daga,“ segir Sigríður Kristjánsdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is, spurð út í stöðuna á eldgosinu.
Eins og fram hefur komið í fréttaflutningi mbl.is rís land enn undir Svartsengi þrátt fyrir að gos standi yfir. Þetta telst afar óvenjulegt og ef kvikusöfnun heldur áfram á svipuðum hraða eru meiri líkur á því að kraftur eldgossins á Sundhnúkagígaröðinni aukist verulega, samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni.
En eins og staðan er núna bendir ekkert til þess að virknin sé að færast í aukana, að sögn Sigríðar: „Nei, það eru engin merki sem við erum að sjá núna.“
Hún segir að gosórói á svæðinu sé stöðugur og svipaður því sem hefur verið síðustu daga.
Auk þess hafa ekki nema 15 skjálftar mælst í kvikuganginum undir Svartsengi frá miðnætti, sem telst afar lítið.