Ástþór og Arnar Þór komnir með meðmælin

Ástþór Magnússon og Arnar Þór Jónsson.
Ástþór Magnússon og Arnar Þór Jónsson. Samsett mynd/mbl.is/Eggert

„Það tók bara nokkrar mínútur, þeir opnuðu fyrir mig rafrænt og núna er ég kominn með margfalt umfram í meðmælum,“ segir Ástþór Magnússon forsetaframbjóðandi í sambandi við mbl.is en hann hefur nú safnað öllum meðmælum og undirskriftum sem hann þarfnast fyrir framboð sitt.

Landskjörstjórn fer nú yfir þau 13 forsetaframboð sem bárust á föstudag. Opnað var aftur fyrir meðmælasöfnun fjögurra frambjóðanda í gær og í dag þar sem þá vantaði nokkrar undirskriftir.

Helga Þórisdóttir greindi frá því í gærkvöldi að hún væri komin með þær undirskriftir sem vantaði upp á. Auk hennar og Ástþórs vantaði Arnar Þór Jónsson og Eiríki Inga Jóhannsson fleiri meðmæli. 

„Við vorum með mjög mikið af handskrifuðum listum og núna, ólíkt 2016, komu upp tæknileg vandamál við að fletta upp kennitölum og við vorum bara eins og blindir kettlingar að vinna með þessa lista því við gátum ekki flett upp öllum kennitölunum. Ég var með svo miklu meira úti á landi en ég þurfti [...] en í Sunnlendingafjórðungi var það tæpara, kona sem hafði séð um Suðurlandið veiktist og lenti á spítala,“ segir Ástþór og er þar hefði verið komið sögu hefði aðeins örlítið vantað upp á.

Hefur Ástþór ýtt úr vör leik á vefsíðunni núna.is. „Fólk getur farið þar inn og svarað einföldum spurningum úr baráttumálum mínum og ef það gefur rétt svör getur það unnið rafbíl,“ segir Ástþór af kosningabaráttu sinni.

Á leið til fundarhalda á Ísafirði

Arnar Þór er einnig kominn með allt sem hann vantar af formlegheitum fyrir framboð sitt en hann hafði vantað sex meðmæli.

„Þessi meðmæli vantaði í Vestfirðingafjórðungi, þau eru komin núna,“ segir Arnar Þór sem er á leið til fundarhalda um framboð sitt á Ísafirði um leið og hann segir mbl.is frá.

Ekki fengust upplýsingar um stöðu mála frá Eiríki Inga en hann greindi frá því í Facebook-færslu í gærkvöldi að hann vantaði 15 meðmælendur í Sunnlendingafjórðungi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert