Gosopið gæti stækkað á ný: „Eitthvað í aðsigi“

„[Þetta er] kannski vísbending um það að forðabúrið sé að …
„[Þetta er] kannski vísbending um það að forðabúrið sé að verða fullt,“ segir eldfjallafræðingur í samtali við mbl.is. Mynd tekin 7. apríl. Ljósmynd/Hörður Kristleifsson

Gosopið við Sundhnúkagíga gæti stækkað enn meira ef kvikuframleiðni gossins eykst, sem er líklegt að mati eldfjallafræðings. Landris virðist farið að hægja á sér sem gæti þýtt að það sé „eitthvað í aðsigi.“

Þetta segir Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur í samtali við mbl.is en hann býst við því að sjá aukningu í framleiðni eldgossins á næstu 48 tímum, sérstaklega ef satt reynist að landris sé farið að hægja á sér undir Svartsengi.

Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur gerir ráð fyrir auknu afli í eldgosinu …
Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur gerir ráð fyrir auknu afli í eldgosinu á næstu sólharhringum. mbl.is/Arnþór

Kvikan sem flæðir upp úr gígnum í eldgosinu við Sundhnúkagígaröðina á uppruna sinn í kvikuhólfi djúpt undir Svartsengi. Fyrir ofan það hólf er annað grynnra kvikuhólf, sem spúir kvikunni síðan upp á yfirborð.

„Kvikan sem kemur upp úr dýpra forðabúrinu [þ.e. kvikuhólfinu] fer að hluta til upp í gos og hluta til er hún að pumpast inn í þetta [grynnra] forðabúr,“ útskýrir Þorvaldur.

Hægara landris gæti þýtt tíðindi

Land rís nú undir Svartsengi, sem þýðir að meira magn af kviku flæðir inn í grynnra kvikuhólfið heldur enn flæðir út úr því. Þetta telst afar óvenjulegt.

„En núna tek ég eftir því að landrisið sé að hægja á sér,“ segir Þorvaldur.

Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands bendir sumt til þess farið sé að hægja á landrisinu. Það kemur þó betur í ljós á morgun, mánudag, þegar sér­fræðing­ar eru búnir að fara yfir gögnin.

„[Hægara landris] er yfirleitt hálfgerð vísbending um að það sé kannski eitthvað í aðsigi. Kannski vísbending um það að forðabúrið sé að verða fullt,“ segir Þorvaldur.

Línuritið sýnir áætlað magn kviku sem hefur bæst við undir …
Línuritið sýnir áætlað magn kviku sem hefur bæst við undir Svartsengi á milli þeirra eldgosa eða kvikuhlaupa sem hafa orðið frá því í nóvember 2023. Kort/Veðurstofa Íslands

Pípulögn og tankur sem eru komin að þolmörkum

Þorvaldur vill meina að kvikuhólfið sé aftur komið að þolmörkum. Og þá sé spurning hvað gerist næst en, eins og svo oft áður, kemur meira en ein sviðsmynd til greina.

„Ef þú hugsar þetta eins og pípulögn og síðan ertu með lítinn tank hálfleiðina á pípulögninni. Og þú pumpar inn í hann þegar hann er orðinn fullur. Þá getur gerst eitt af tvennu,“ útskýrir hann og varpar fram tveimur sviðsmyndum, báðar hverjar gera ráð fyrir auknum krafti í gosinu.

Fyrsta sviðsmyndin, og sú líklegasta að mati Þorvaldar, er sú að „tankurinn“ einfaldlega fyllist og kvikuflæði í gegn um grynnra hólfið eykst samhliða því, án þess að land sígi.

Hin sviðsmyndin er sú að „tankurinn“ tæmist, með tilheyrandi landsigi í Svarstengi, auk þess sem að framleiðni gossins myndi skyndilega aukast til muna.

Samt engin stór dramatík

Þetta myndi þýða að gosopið gæti stækkað.

„Ef aflið eykst í gosinu getur það leitt til þess að gosopin sem eru í gangi núna stækki eða lengist.“ segir Þorvaldur.

Hann býst samt ekki við því nýr kvikugangur myndist eða nýtt gos á nýjum stað.

„Það eykst aðeins aflið í gosinu, það verður aðeins meira hraunrennsli, þetta verður engin stór dramatík sem er í gangi. Þetta er ákveðin þróun í gosinu sjálfu,“ bætir eldfjallafræðingurinn við að síðustu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert