„Þetta hefur náttúrulega verið haldið síðan 2018 og er hugarfóstur Einars Bárðarsonar sem er Rótarý-félagi. Honum fannst þetta orðið of stórt fyrir einn mann að halda utan um og heyrði þá í okkur Rótarý-félögum um hvort það væri einhver grundvöllur til að við tækjum við þessu verkefni,“ segir Ómar Bragi Stefánsson, umdæmisstjóri Rótarý, í samtali við mbl.is.
Umræðuefnið er Stóri plokkdagurinn sem er einmitt í dag og er haldinn í sjöunda sinn og taka langflest sveitarfélög landsins þátt í verkefninu sem gengur út á að fyrirtæki nýta daginn og dagana í kring til að taka til hendinni við sorptínslu. Það sama á við um hverfa- og félagasamtök og stefnir í metþátttöku í ár.
„Þetta er gott verkefni og þarft, við erum með yfir þrjátíu klúbba víðs vegar um landið sem eru að kynna þetta úti um allt og við lítum líka bara á þetta sem tækifæri til að vera sýnileg, það er að segja Rótarý-hreyfingin,“ segir Ómar Bragi.
Aðspurður kveður hann Plokkdaginn falla eins og flís við rass að verkefnum hreyfingarinnar sem láti sig umhverfismál miklu varða. „Rótarý eru stærstu góðgerðarsamtök í heiminum og á þessu ári leggjum við fjörutíu milljarða í góðgerðarmál á heimsvísu,“ segir umdæmisstjórinn og bætir því við að Rótarý-samtökin séu úti um allt. „Einar telur að þetta verði stærsti dagurinn, þátttakan verði þannig,“ segir Ómar Bragi.
Á Íslandi segir hann milli ellefu og tólf hundruð félaga starfandi í rúmlega þrjátíu klúbbum, „allir geta komið í Rótarý og eru velkomnir, ég bý sjálfur á Sauðárkróki þar sem ég er umdæmisstjóri og skaust suður í morgun þar sem ég var mættur við setninguna í Grafarvogi með forseta Íslands og umhverfisráðherra. Síðan hef ég farið á milli klúbba og er staddur í Hafnarfirði núna og á leið í Mosfellsbæ, ég ætla bara að kíkja á mitt fólk,“ segir Ómar Bragi Stefánsson hjá Rótarý og segir samtökin ávallt tilbúin að láta gott af sér leiða.