Aðgerðastjórn almannavarna rannsakaði í dag hvort ný sprunga hefði opnast í eldgosinu við Sundhnúkagíga, eftir hafa fengið ábendingar um slíkt. Svo reyndist ekki hafa gerst, heldur var þarna líklega um gróðureld að ræða að sögn Veðurstofu.
Á ljósmynd sem Lucas Flatchart, þyrluflugmaður Norðurflugs, tók úr lofti á þriðja tímanum eftir hádegi í dag mátti sjá reykmökk og svarta rönd við Hraunsanda, austur af Grindavík.
Þegar mbl.is hafði samband við Veðurstofu var aðgerðarstjórn fengin til þess að kanna myndina.
„Þetta lítur í rauninni út fyrir að vera annað hvort gróðureldur eða að það sé einhver dæld sem hraunið hefur runnið í,“ segir Lovísa Mjöll Guðmundsdóttir, náttúrvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.
„Ef það væri einhver sprunga væri meira búið að gerast.“
Land rís enn undir Svartsengi, en landris er afar óvenjulegt undir yfirstandandi gosi.
Gígurinn í eldgosinu við Sundhnúkagíga er enn stöðug, eins og sjá má á vefmyndavélum mbl.is.
Spurð út í hraða landrissins svarar Lovísa: „Það lítur út fyrir að það sé aðeins farið að hægja á því en það er of snemmt að segja til hvort þetta sé raunverulegt merki eða ekki.“
„Sérfræðingar koma í hús á morgun og þá er farið yfir þetta.“