Baldur Þórhallsson forsetaframbjóðandi svarar fyrir myndbirtingar, m.a. ljósmynd sem tekin var af honum á kynlífsklúbbi í París og birt er á heimasíðu klúbbsins.
Myndin sé 10 ára gömul og hann hafi enga vitneskju um starfsemi staðarins.
„Ég man ekki einu sinni eftir að hafa farið á hann,“ segir Baldur.
Umrædd ljósmynd var birt á heimasíðu staðarins þann 12. desember 2012 þegar haldið var upp á tveggja ára starfsafmæli hans.
Myndina má sjá hér neðar.
Umræðuna um þetta mál, sem skekið hefur kosningabaráttuna að undanförnu, má sjá í spilaranum hér að ofan en orðaskiptin eru einnig aðgengileg í texta hér fyrir neðan.
Þessi barátta hefur orðið persónuleg að nokkru leyti og þú hefur þurft að svara fyrir, eða það hafa verið í gangi sögusagnir af ýmsum toga. Það þekkir þú. Það hefur verið reynt að höggva í ykkur með ómálefnalegum og ógeðfelldum hætti veit ég.
En það eru ákveðin mál sem er þó rétt að ræða og nauðsynlegt að ræða þegar við erum að ræða embættið, ásýnd þess og annað. Nú hafa umræður verið um myndsendingar og annað í sambandi við stefnumótaforritið Grindr sem ég hef ekki áhuga á að ráða kannski af mikilli nákvæmni en það eru önnur mál sem hafa komið fram opinberlega, t.d. ljósmyndir af ykkur á auglýsingasíðum hjá klúbbum í París og Berlín sem eru yfirlýstir kynlífsklúbbar.
Og þetta eru myndir sem ýmsum kannski bregður við að sjá inni á þessum síðum. Er einhver hætta á því að þessir hlutir sem ég ítreka að eru ykkar persónulega málefni og ættu ekki erindi á þetta borð nema vegna þess að þið sækist eftir kjöri til embættis forseta Íslands. Eru þetta hlutir sem geta skaðað ímynd eða ásýnd forsetaembættisins?
„Við eins og allir aðrir verðum fyrir þessum kjaftasögum og menn ýkja einhverja hluti eins og einhverja mynd af mér, 10 ára gamla mynd ef ekki meira á einhverjum bar í París sem á að hafa verið á einhverjum sérglöðum klúbbi. Þessi mynd er með þeim sakleysislegri myndum sem hafa birst af mér. Þó ég viti ekki hvað þessi staður gerir í dag.“
En við vitum hvernig klúbbur þetta er og þetta eru klúbbar sem eru þekktir fyrir...
„Ég hef ekki hugmynd um þennan klúbb og man ekki einu sinni eftir því að hafa farið á hann. Þetta er eldgömul mynd og hún er mjög siðsamleg, það er bara ekkert að þessari mynd.“
En hefur þú ekki farið á svona klúbba á síðustu árum?
„Ég hef ekkert verið að sækjast eftir þessum klúbbum eða annað. Og eitt er sko, eins og fræðimannsstarfið eða einkalíf fólks áður en það fer að gegna embætti og eitt er mannréttindabarátta áður en þú kemur í embætti. Þá verður þú einfaldlega að tala og vera öðruvísi. Við erum ekki í mannréttindabaráttu...“
Ég ítreka það að það er ekki létt verk í sjálfu sér að færa þetta í tal. En ég tel að það sé nauðsynlegt því á sama tíma og ég tel að þetta séu einkamálefni þá getur þetta haft áhrif á ásýnd embættisins og þess sem því gegnir. Ekki aðeins hér heima heldur líka erlendis.
„Ég ætla þá að benda á það að við Felix höfum verið í opinberum og óopinberum erindagjörðum fyrir hönd Íslands í áratugi. ÞEgar ég tala á alþjóðlegum ráðstefnum og dvel langdvölum við erlenda háskóla sem prófessor við Háskóla Íslands þá tel ég mig vera óbeinan fulltrúa íslensku þjóðarinnar.“
En það er allt öðruvísi en að vera þjóðhöfðingi...
„Nei, nei. Leyfðu mér að klára. Þegar Felix er búinn að vera fararstjóri íslenska Eurovision-hópsins í meira en áratug og gegnt ýmsum hlutverkum. Ég veit ekki betur en að við höfum alla tíð komið fram sómasamlega. Ég veit ekki til þess að það hafi nokkurn tíma verið svartur blettur á okkar framkomu. Og það væri dálítið sérkennilegt ef það myndi breytast ef við flyttum á Bessastaði.
Ég lít á það þannig að ég hef hingað til haldið tugi fyrirlestra, verið gestafræðiprófessor beggja vegna Atlantshafsins, oft mánuðum saman, hálft ár. Og ég lít einfaldlega svo á að ég sé fulltrúi íslensku þjóðarinnar, þó ég sé það að sjálfsögðu óbeint. Það hefur aldrei varpað skugga á íslenskt samfélag eða Ísland, okkar framkoma erlendis.“
Viðtalið við Baldur má sjá og heyra í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan: