Umdeild einkennismerki lögreglunnar

Umboðsmaður Alþingis hefur sent ríkislögreglustjóra bréf þar sem óskað er útskýringa á því hvers vegna lögregla hafi tekið í notkun merki sem ekki eru í samræmi við reglugerð um einkenni og merki lögreglunnar.

Einnig að gerð athugasemd við að einkennisfatnaður sérsveitarinnar sé auðkenndur með merkjum sem ekki eiga sér stoð í reglum. Spyr umboðsmaðurinn embætti ríkislögreglustóra jafnframt um aðdraganda þess að merkjum var breytt og hvers vegna.

Lögreglumerki á heimasíðu 

Hið nýja lögreglumerki sem meðal annars má finna á heimasíðu lögreglunnar, logreglan.is er ekki með þessum frægu einkennisorðum og er talsvert ólíkt því merki sem lögregla hefur notast við. 

Merkið þykir ekki standast reglur.
Merkið þykir ekki standast reglur.

Fram kemur í reglugerð um lögreglumerki að þau séu alls sjö talsins. Eitt þeirra er borði sem á er letrað „LÖGREGLAN“ eða „POLICE“ samkvæmt reglugerð. Þá er einnig tilgreint að áletrunin eigi að vera gul á svörtum fleti.

Þá er jafnframt tilgreint um að áletrunin „MEÐ LÖGUM SKAL LAND BYGGJA“ beri að rita umhverfis skjöld, í miðri stjörnunni.

Enn fremur gerir umboðsmaður Alþingis athugasemd við merki sérsveitarinnar. Eru þær af tvennum toga. Annars vegar að sérsveitarmenn hafi sést með gráa stjörnu á svörtum fleti í stað þess að vera gult merki á svörtum fleti. 

Merki sérsveitarinnar er grátt á svörtum grunni.
Merki sérsveitarinnar er grátt á svörtum grunni.

Eins er gerð athugasemd við annað merki sérsveitarmanna sem ekki sé heimilt að nota samkvæmt reglugerð. Er því lýst sem svo að þar sé ávalt merki með útlínur Íslands í miðjunni, en út frá hvorri hlið liggja nokkurs konar vængir.

Vopnaðir erlendir löggæslumenn hér á landi 

Málið er öðrum þræði tengt því þegar erlendir löggæslumenn komu hingað til lands vegna leiðtogafundar Evrópuráðsins. 

Fundurinn var haldinn í Hörpu á síðasta ári. Komu þá erlendir löggæslumenn hingað til lands gráir fyrir járnum og voru í einkennisklæðnaði lögregluliðs heimalandsins.

Sendi umboðsmaður Alþingis í kjölfarið ábendingu til forseta Alþingis þar sem hann taldi heimild ríkislögreglustjóra til að fela erlendum ríkisborgurum framkvæmd löggæsluverkefna á Íslandi of rúmt með tilliti til vilja löggjafans og almennra sjónarmiða um framsal valdheimilda.

Erlendir löggæslumenn sinntu verkefnum gráir fyrir járnum.
Erlendir löggæslumenn sinntu verkefnum gráir fyrir járnum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Óskaði umboðsmaður í kjölfarið eftir upplýsingum og skýringum vegna veru vopnaðra og einkennisklæddra erlendra lögreglumanna í tengslum við leiðtogafundinn.

Þá hvatti hann til þess að settar yrðu nánari reglur um samstarf lögreglu við erlend lögregluyfirvöld og erlendar stofnanir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert